Hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð
Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Fjarðabyggðar, býður til opinnar hönnunarsamkeppni (framkvæmdasamkeppni) um nýbyggingu hjúkrunarheimilis í Fjarðabyggð, nánar tiltekið á Eskifirði. Um er að ræða að hámarki 1500 m² byggingu sem staðsett verður að Dalbraut 1 á Eskifirði. Tvö fyrirspurnartímabil eru í samkeppninni og lýkur því fyrra 13. apríl 2010 en því síðara 26. maí 2010.
Skilafrestur tillagna er 7. júní 2010, fyrir klukkan 16.00 hjá Ríkiskaupum. Veitt verða þrenn verðlaun að heildarupphæð 7 m.kr. (milljónir króna).
Samkeppnin fer fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og er auglýst á EES (Evrópska efnahagssvæðinu). Gert er ráð fyrir að hönnun verði lokið og útboðsgögn tilbúin vorið 2011, framkvæmdir hefjist sumarið 2011 og þeim verði lokið vorið 2013.
Nánari upplýsingar er að finna í samkeppnislýsingu sem verður aðgengileg á vef Ríkiskaupa, www.rikiskaup.is, útboðsnúmer 14838. Samkeppnislýsing verður aðgengileg á vef Ríkiskaupa þriðjudaginn 16. mars 2010 og til að nálgast ítargögn verður að skrá sig til þátttöku á vefnum. Gögnin verða einnig fáanleg á geisladiski gegn framvísun staðfestingar á þátttöku og 3.500 kr. greiðslu frá sama tíma hjá Ríkiskaupum, Borgartúni 7C, 105 Reykjavík. Skrifstofan er opin virka daga frá klukkan 8.00 til 16.00.