21. júní 2021

FSR stígur græn skref og hjólar inn í kolefnishlutlausa framtíð

Stofnunin hefur uppfyllt skilyrði 3. og 4. skrefs og hlýtur hjólavottun

Markviss vinna FSR að grænu skrefunum skilar sér í hjólavottun og staðfestingu Umhverfisstofunar á að græn skref hafi verið stigin.

Á vordögum hlaut Framkvæmdasýslan vottun Umhverfisstofnunar um græn skref. FSR hefur nú stigið fyrstu fjögur grænu skrefin af fimm, auk þess sem að stofnunin hefur hlotið hjólavottun. Umhverfisteymi stofnunarinnar stefnir ótrautt að því að uppfylla fimmta skrefið fyrir árslok.

Þriðja og fjórða skref lýtur að ýmsum þáttum rekstrar. Er þar horft til flokkunar á úrgangi, rafmagnsnotkun og húshitun, samgangna, innkaupa og fleiri atriða. Þá er reiknað með því að stofnanir hafi almennt grænt bókhald, haldi utan um losun kolefnisígilda og horfi til þess í starfsemi sinni að lækka losun á hvert stöðugildi.

Markmið Grænu skrefanna er að efla umhverfisstarf ríkisaðila. Samkvæmt Loftlagsstefnu Stjórnarráðsins verða gerðar kröfur um að allar ríkisstofnanir uppfylli öll fimm Grænu skrefin fyrir árslok 2021.

Hægt er að styðjast við Grænu skrefin við gerð umhverfis- og loftlagsstefnu. Samkvæmt lögum um loftlagsmál (nr. 70/2012, 5.gr.c) skulu stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins setja sér loftlagsstefnu. Stefnan skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð.


Verkefnið Græn skref í ríkisrekstri á rætur sínar að rekja til stefnu ríkisins fyrir árin 2013 – 2016 um Vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, en á þeim tíma kom fram skýr vilji hjá mörgum ríkisstofnunum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, innleiða Grænt bókhald og auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum. Græn skref í ríkisrekstri fór formlega af stað í nóvember árið 2014. Fyrr á árinu höfðu nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins prufukeyrt aðferðina og hjálpað til við að aðlaga Grænu skrefin að skrifstofustarfssemi ríkisins.

Grænu skrefin eru uppfærð reglulega til að endurspegla áherslur stjórnvalda og nýjustu þekkingu. Einnig er reynt að taka mið af reynslu og ábendingum frá þátttakendum við uppfærslu skrefanna.


Fréttalisti