Háskóli Íslands, Háskólatorg
Skilafrestur í mars 2005
Verkkaupi ákvað að fara alútboðsleið og var unnið að því að skilgreina þarfir og kröfur sem húsnæðið skyldi uppfylla. Samkvæmt eðli alútboðs nær það bæði til hönnunar og verklegar framkvæmdar.
Til undirbúnings alútboðs var á árinu 2004 og byrjun árs 2005 unnið að alútboðsgögnum. Vegna samstarfs byggingarnefndarinnar við FSR sat Ásdís Ingþórsdóttir, þá verkefnastjóri FSR, fundi nefndarinnar. Fyrir lá hvar staðsetning bygginganna skyldi vera en ákveðið var að gerð deiliskipulags yrði hluti alútboðsins.
Fyrir hönnuði var áhugavert að komið var fyrir eins konar hönnunarsamkeppni innan alútboðsins og sérstakt var einnig að í alútboðinu var ákveðin föst fjárhæð til verkefnisins Háskólatorgs, 1,6 milljarður króna.
Útboðsaðferðin fól því í sér að við mat á tillögum tók verkkaupi einungis afstöðu til gæða þeirra, þar sem kostnaður var fyrirfram ákveðinn, í stað þess að vega saman verðtilboð og gæði eins og tíðkast hefur.
Fjármálaráðuneytið veitti þann 28. febrúar 2005, heimild til auglýsingar forvals vegna Háskólatorgs.
Forval alútboðs fór fram í mars 2005 þar sem verktakar sóttu um að taka þátt í samkeppni um hönnun og byggingu Háskólatorgs. Í alútboðinu var, eftir því sem tök voru á, líkt eftir hönnunarsamkeppnum. Var forval alútboðsins fyrra þrep hönnunarsamkeppninnar.
Niðurstöður forvalsins lágu fyrir í apríl 2005 og voru eftirtaldir fimm bjóðendur valdir til þátttöku.
- Íslenskir aðalverktakar hf. ásamt samræmingarhönnuðunum Ögmundi Skarphéðinssyni frá Hornsteinum og Ingimundi Sveinssyni frá Teiknistofu Ingimundar Sveinssonar.
- ÞG verktakar ehf. ásamt samræmingarhönnuðinum Sigurði Halldórssyni frá Glámu Kím.
- Ístak hf. ásamt samræmingarhönnuðinum Steve Christer frá Studio Granda.
- Keflavíkurverktakar ehf. ásamt samræmingarhönnuðinum Sigurði Hallgrímssyni frá Arkþingi.
- JB byggingarfélag ehf. ásamt samræmingarhönnuðinum Ormari Þór Guðmundssyni.
Dómnefnd í alútboðssamkeppni um Háskólatorg tók til starfa í lok apríl. Byggingarnefnd Háskólatorgs tók sæti í dómnefnd ásamt arkitektunum Þorsteini Gunnarssyni og Þorvaldi S. Þorvaldssyni, fulltrúum frá Arkitektafélagi Íslands, samkvæmt sérstöku samkomulagi Háskólans og félagsins. Ráðgjöf veitti Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. Ritari dómnefndar var Ásta Hrönn Maack skrifstofustjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs Háskóla Íslands.
Niðurstaða dómnefndar var kynnt 18. október 2005.
Íslenskir aðalverktakar og arkitektarnir Ögmundur Skarphéðinsson og Ingimundur Sveinsson urðu hlutskarpastir í samkeppni um tillögu að hönnun og byggingu Háskólatorgs Háskóla Íslands. Sjá kynningu á samkeppninni.
Undirritun samnings fór fram þann 1. desember 2005 og undirrituðu Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Gunnar Sverrisson forstjóri Íslenskra aðalverktaka samning um hönnun og byggingu Háskólatorgs í hátíðarsal Háskóla Íslands í tengslum við fullveldishátíð stúdenta við Háskóla Íslands.
Við sama tækifæri afhenti Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, fyrstu greiðslu samningsins, rúmar 13 milljónir króna, en starfsemi Félagsstofnunar mun flytja í Háskólatorg ásamt fleiri einingum. Deiliskipulag var gert og formlega afgreitt. Samningur um verkið var gerður í desember 2005.