11. október 2019

Aukin áhersla á ódýrara og umhverfisvænna húsnæði

Forstjóri FSR á fundi norrænna byggingamálaráðherra

Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslunnar var meðal þátttakenda í hringborðsumræðum norrænna byggingamálaráðherra með forstjórum úr norrænum byggingariðnaði sem fram fór á Hótel Sögu í gær. 

Í yfirlýsingu sem byggingar- og húsnæðismálaráðherrar Norðurlandanna hafa komið sér saman um kemur fram að draga þurfi úr losun koltvísýrings frá húsnæði og byggingariðnaði á Norðurlöndum. Eins að greinin ætti að leggja aukna áherslu á hringrásarhagkerfi. Ráðherrarnir vilja sömuleiðis sjá aukið norrænt samstarf til að efla samkeppni og lækka húsnæðiskostnað. 

Meira en þriðjungur af losun norrænu landanna á koltvísýringi kemur frá húsnæði og byggingariðnaði. Því vilja hinir norrænu ráðherrar húsnæðis- og byggingarmála bregðast við. Þeir hafa því komið sér saman um yfirlýsingu þar sem áhersla er lögð á þörfina fyrir aukið samstarf í því skyni að draga úr losun frá húsnæði og byggingariðnaði.

Í tengslum við fund ráðherranna fóru fram hringborðsumræður þar sem forstjórar úr norrænum byggingariðnaði tóku þátt ásamt ráðherrunum. Á fundinum var meðal annars rætt hvernig auðvelda megi norrænum byggingaraðilum að vinna þvert á landamæri. Slíkt samstarf stækki markaðssvæði fyrirtækja, auki samkeppni og hagkvæmni. Þannig fái norðurlandabúar ódýrara húsnæði, sem er við efni fleira fólks, einkum yngri hópa sem víða hafa orðið illa úti vegna markaðsbresta á húsnæðismörkuðum.


Fréttalisti