• Bim-island

15. maí 2018

Breyting á félagsaðild í BIM Ísland

Til stendur að BIM Ísland verði opið öllum hagaðilum innan byggingariðnaðarins

BIM Ísland hefur hingað til verið félag opinberra fyrirtækja og stofnana. Nú stendur til að það verði opið öllum hagaðilum innan byggingariðnaðarins. Skráning í hið breytta félag verður meðal annars á aðalfundi þess miðvikudaginn 23. maí næstkomandi kl. 15:00-18:00 í fundarsal Mannvits að Urðarhvarfi 6, 203 Kópavogi.

BIM Ísland hefur verið starfandi sem hagsmunafélag opinberra fyrirtækja og stofnana frá árinu 2008 með það að markmiði að styðja við innleiðingu á BIM í opinberum framkvæmdum.

Markmið félagsins hefur verið að „Innleiða notkun samhæfðra upplýsingalíkana við undirbúning, hönnun, byggingu og rekstur opinberra mannvirkja á Íslandi til að auka gæði hönnunar og nákvæmni upplýsinga um mannvirkið og ná með því fram lægri byggingar- og rekstrarkostnaði.“

Síðastliðið vor var haldinn stefnumótunarfundur BIM Íslands þar sem aðilar frá flestum fagsviðum og hagaðilahópum byggingariðnaðarins á Íslandi tóku þátt í að móta stefnu BIM Íslands, skilgreina tilgang félagsins og markmið. Niðurstöður stefnumótunarfundarins leiddu í ljós skýra þörf fyrir samráðsvettvang innan byggingariðnaðarins með það að markmiði að miðla þekkingu um BIM, samræma staðla, ferla og kröfur, ásamt því að aðstoða og fræða fyrirtæki og stofnanir við innleiðingu á BIM. 

Því stendur nú til að breyta aðildarformi félagsins og stefna að því að BIM Ísland verði vettvangur fyrir alla hagaðila í íslenskum byggingariðnaði til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum og auka þekkingu og færni iðnaðarins á þessum vettvangi. 


Fréttalisti