Fjórir nýir starfsmenn hjá FSR
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur fengið til liðs við sig tvo nýja verkefnastjóra á sviði frumathuguna og áætlunargerðar, einn á fagsvið verklegra framkvæmda og skilamata og loks teymisstjóra greininga og stefnumótunar sem er nýtt starfssvið innan FSR.
Teymisstjóri greininga og stefnumótunar
Katrín Sverrisdóttir hóf störf sem teymisstjóri greininga og stefnumótunar, sem er nýtt starfssvið innan FSR, 8. janúar 2019. Hún mun leiða uppbyggingu teymis greininga og stefnumótunar innan FSR vegna fjárfestinga-, framkvæmda- og húsnæðisöflunarverkefna á vegum hins opinbera. Teymi greininga og stefnumótunar heyrir beint undir forstjóra FSR og vinnur í samstarfi með fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Katrín hefur lokið Cand.oecon í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, prófi í verðbréfaviðskiptum ásamt diplómu í viðurkenndum stjórnarmönnum. Katrín starfaði hjá Reginn fasteignafélagi á árunum 2009-2016, þar af framkvæmdastjóri dótturfélaga frá árinu 2010. Síðan þá hefur hún verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi í ýmsum fasteigna- og fjármögnunartengdum verkefnum.
Verkefnastjóri á fagsviði verklegra framkvæmda og skilamata
Hreinn Sigurðsson hóf störf sem verkefnastjóri á fagsviði verklegra framkvæmda og skilamata í byrjun janúar 2019. Hreinn hefur lokið B.Sc. prófi í byggingartæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík, auk þess hefur hann lagt stund á nám í framkvæmdastjórnun við sama skóla. Hreinn starfaði við stjórnun byggingarframkvæmda hjá Munck á Íslandi um tíma, áður starfaði hann sem verkefnastjóri og við eftirlit byggingarframkvæmda hjá Framkvæmdasýslu ríkisins um árabil. Hann hefur einnig starfað við verkefnastjórnun og eftirlit byggingarframkvæmda hjá Sandnes kommune Eiendom í Noregi.
Tveir nýir verkefnastjórar á sviði frumathugana og áætlunargerðar
Björn H. Skúlason og Jóhann Gunnarsson hafa verið ráðnir verkefnastjórar á sviði frumathugana og áætlunargerðar hjá FSR.
Björn hefur lokið M.Sc. prófi í byggingaverkfræði við LTH í Svíþjóð (Construction Management) og B.Sc. í byggingartæknifræði frá Tækniskóla Íslands. Björn hefur starfað sem framkvæmdastjóri MainManager ehf. undanfarin ár, þá starfaði hann um árabil sem verkefnastjóri og deildarstjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Björn mun hefja störf hjá FSR í lok janúar 2019.
Jóhann Gunnar lauk M.Sc. prófi í byggingaverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet og MBA námi frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað síðastliðin ár sem hjá WSP Engingeering í Noregi sem ráðgefandi verkfræðingur og faglegur stjórnandi innan byggingageirans, meðal annars við mannvirkjahönnun. Jóhann mun hefja störf hjá FSR í maí 2019.
Við bjóðum þessa öflugu viðbót í starfshóp FSR hjartanlega velkomna.