• Hús íslenskunnar hornsteinn

21. apríl 2021

Forseti og menntamálaráðherra lögðu hornstein að Húsi íslenskunnar

Hornsteinn var lagður að Húsi íslenskunnar í dag, síðasta vetrardag. 

Hornsteinn var lagður að Húsi íslenskunnar síðdegis í dag, síðasta vetrardag.

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra lögðu í sameiningu hornstein í vegg þess sem verða mun bókasafn Árnastofnunar.

Hornsteinninn inniheldur meðal annars teikningar hússins, Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða, tvö þeirra handrita sem komu til landsins fyrir 50 árum, að þessu sinni rafræn eintök á USB kubbi.

Jón Atli Benediktsson háskólarektor og Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar tóku á móti gestum og stýrðu athöfninni. Myndir: Kristinn Ingvarsson.

Í stuttu ávarpi sagði menntamálaráðherra meðal annar:„Dagurinn varpar vonargeisla langt inn í framtíðina og eykur kjark og þrautseigju, enda síðasti dagur vetrar.“

Lilja vék svo að samningaviðræðum við Dani um heimkomu fleiri handrita: „Það er markmið okkar að fá fleiri handrit hingað heim til sýningar, ýmist til lengri eða skemmri tíma svo almenningur fái notið þeirra íslensku gersema. Ég er vongóð um að góð niðurstaða náist og opnunarsýningin hér, haustið 2022 verði ógleymanleg öllum sem hana sjá.“

Guðni Th. Jóhannesson forseti sagði:

„Þetta er gleðidagur. Fyrir hálfri öld fengum við handritin heim og nú fögnum við nýrri byggingu sem mun hýsa þau. Þessi sagnaarfur er okkar og mannkyns alls. Gætum hans vel og miðlum honum líka eftir bestu getu.“

Bergsveinn Birgisson rithöfundur og skáld flutti við þetta tækifæri kvæði sem hann orti sérstaklega fyrir viðburðinn. Í kvæðinu talar Bergsveinn um tengsl sagnaarfs Íslendinga við söguna og nútímann og fagnar þeirri umgjörð sem nú er risin á Melunum. Ljóðið í heild má lesa neðst í fréttinni.

Að lokinni athöfninni bauðst gestum að skoða húsið í fylgd arkitekta þess.

Stefnt er að því að Hús íslenskunnar verði afhent eigendum sínum sumarið 2022 og verði tekið í notkun af Háskóla Íslands og Árnastofnun árið 2023. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingunni, en ÍSTAK hf. er aðalverktaki hússins.

Ljóð Bersveins Birgissonar, sem hann flutti við athöfnina:

 

Við hornstein að Húsi íslenskunnar

Bjúgrend, hvelfd og kúpt er kringlan unga,

kringlótt er byggingin hvað sem hún skal heita.

Kringlótt er fjöreggið, kringlótt er íslensk tunga,

kringlan er heimsins með orðin sem ֦„yndið veita“.


Ég hugsa um funann þann forna sem kveikti bálið,

um fræðamann, skáld og ömmu sem ljóðin kunni,

um frásagnargleði sem verndaði móðurmálið

– megi það tendra allt lífið í byggingunni.


Hljóðfæri Guðs og Hallgríms Péturssonar:

hásumarblómi og súgur í klettasprungu,

harðærisvetur og hörpunnar tónn sem vonar

hljóminn þinn skópu og læstu á hverja tungu.


Samhengi þitt er sjaldgæft á meðal þjóða:

að söngur þess manns sem óð hér að landi fyrstur

er samur að lagi og listarapparans góða,

laufið er nýtt en forn er þess greinarkvistur.


Að yrkja sitt mál er mannúðin sjálf í verki.

Að meitla sín orð er gjöf til allra manna,

líkt og af trénu flettir þú feysknum berki

og finnir þar efnivið lífsins, hinn hreina og sanna.


Lágreist voru húsin og lengstum moldarkofar

en ljóðið og sagan var höll þín með drekkhlöðnum borðum.

Og enn verður hús þitt sá andi sem leitar ofar

og yrðir það starf sitt með bóndans og sjómannsins orðum.


Herskip eitt kom hér, hlaðið með eldgömlu skinni;

hálf öld er síðan þjóðin varð sjálfstæð í anda.

Mál þeirra bóka var málið í hjartanu inni;

mættust þar gullöld og frelsi í sál vorra landa.


Þetta er fjöreggið hússins sem hérna stendur,

heilagar landvættir verndi það alla daga.

Til hamingju Ísland og heill þér Íslendingur,

heilar um aldir systurnar Edda og Saga!

Bergsveinn Birgisson

 

 


Fréttalisti