6. mars 2020

Framkvæmdir við viðbyggingu Alþingis komnar af stað

Stálþil rekið niður við Tjarnargötu

Á næstu vikum má búast við nokkrum titringi á Alþingi. Á lóð nýrrar byggingar Alþingis, nánar tiltekið. Verið er að reka niður stálþil sem marka mun reitinn og halda jarðvegi á sínum stað á meðan grunnur verður tekinn og kjallari byggingarinnar steyptur. Þilið mun verða í jarðveginum til frambúðar.

Að sögn verktaka mun taka um þrjár vikur að reka niður þilið. Nágrannar svæðisins mega eiga von á nokkrum hávaða á tímabilinu. Einnig má búast við allnokkrum titringi á svæðinu, en slíkt mun alvanalegt á Alþingi.

Forskoðun á mynd

Bygging skrifstofubyggingar Alþingis kom fyrst á borð Framkvæmdasýslunnar árið 2015, er þarfagreining og frumathugun voru gerðar. 

Samkeppni um hönnun byggingarinnar fór fram árið 2016, en arkitektastofan Studio Grandi hlaut fyrstu verðlaun og verður byggingin byggð eftir teikningum stofunnar. Hefur hönnun staðið með hléum síðan. 

Nú er forræði verkefnisins að færast til sviðs verklegra framkvæmda hjá Framkvæmdasýslunni og verður Ólafur M. Birgisson verkefnastjóri framkvæmdanna ásamt því að vera byggingastjóri. Útboð vegna byggingarinnar er áætlað í júní næstkomandi og að verklok verði á árinu 2023.

Forseti og skrifstofustjóri Alþingis stóku fyrstu skóflustungurnar í liðnum mánuði að nýrri byggingu, sem er ætlað að sameina starfsemi Alþingis á byggingarreit þingsins. Byggingin verður mikilvæg viðbót við þær byggingar sem þar eru fyrir, en hún mun hýsa skrifstofur þingmanna, þingflokka og starfsmanna þingsins. 


Fréttalisti