• 20170718_131557

19. júlí 2017

„Free-seating“ vinnuumhverfi hjá Sjúkratryggingum Íslands

Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, og Bergþór Jónsson, framkvæmdastjóri Vínlandsleiðar ehf., skrifuðu undir húsaleigusamning í gær.

Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), og Bergþór Jónsson, framkvæmdastjóri Vínlandsleiðar ehf., skrifuðu undir húsaleigusamning í gær, 18. júlí, sem þýðir að öll starfsemi SÍ verður til húsa að Vínlandsleið 6-8, 14 og 16.

Húsnæðið, sem er um 5.100 m2, verður skipulagt samkvæmt hugmyndafræði um verkefnamiðað vinnuumhverfi en í því felst að allir starfsmenn SÍ verða í teymisrýmum („free-seating“ vinnuumhverfi). Hver starfsmaður mun því ekki eiga fasta vinnuaðstöðu heldur velur hann sér vinnuaðstöðu sem hentar þeim verkefnum sem hann vinnur hverju sinni.

Sjúkratryggingar Íslands er fyrsta ríkisstofnunin hérlendis til að tileinka sér alfarið verkefnamiðað vinnuumhverfi sem hefur verið að ryðja sér til rúms í Evrópu og Norður-Ameríku undanfarin ár. Markmiðið með þessu skipulagi er meðal annars að skapa möguleika á betri nýtingu húsnæðis, bæta sveigjanleika þess og auka svigrúm fyrir fjölgun starfsmanna sem fyrirsjáanleg er í nánustu framtíð.

Stærð núverandi húsnæðis SÍ er alls um 6.100 m2 en verður eftir flutninginn alls um 5.100 m2. Sparnaðurinn í húsnæði verður því um 1.000 m2.

Sérstaklega verður hugað að hljóðvist og munu tveir hljóðsérfræðingar koma að hönnun húsnæðisins.

Áætlað er að flutningi í nýja húsið ljúki 1. nóvember nk.

Hlutverk FSR í verkefninu er að hafa umsjón og eftirlit með hönnun og framkvæmdum við húsnæðið samkvæmt húslýsingu.


Fréttalisti