Fyrsta gröfustungan að nýbyggingu Byggðastofnunar
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, tók fyrstu gröfustungu að nýbyggingu Byggðastofnunar á Sauðárkróki föstudaginn 16. nóvember síðastliðinn.
Einnig var undirritaður verksamningur við Vinnuvélar Símonar ehf. um fyrsta áfanga byggingarinnar, það er jarðvinnu. Verkkaupi er Byggðastofnun. Fyrirhugað er að bjóða út annan áfanga, uppsteypu og allan frágang að utan og innan, á næstunni og þriðji áfanginn verður síðan boðinn út á næsta ári, það er frágangur lóðar.
Byggingin mun rísa að Sauðármýri 2 á Sauðárkróki og verður 998,6 m² og 3.805,4 m³. Aðkoma verður frá Sauðármýri. Byggingin verður á tveimur hæðum með stigarými og tilheyrandi lyftu ásamt kjallara undir hluta hússins. Inntaks- og tæknirými verða á jarðhæð.
Öll hönnun aðkomu að byggingunni og innan hennar miðast við þarfir fatlaðs fólks. Aðalhönnuðir eru Úti og inni arkitektar og VSB verkfræðistofa ehf. sér um verkfræðihönnun. FSR hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdinni. Stoð ehf. verkfræðistofa á Sauðárkróki mun sinna daglegu eftirliti.