22. júní 2021

Gestastofa Þingvallaþjóðgarðs hlýtur alþjóðlega umhverfisvottun

Gestastofa Þingvallaþjóðgarðs á Hakinu, sem vígð var í ágúst 2018, hefur hlotið fullnaðarvottun sem umhverfisvæn bygging frá bresku vottunarstofunni BREEAM.

Gestastofa þjóðgarðsins á Þingvöllum á Hakinu var reist árið 2002 og var 212 m². 1057 m² nýbygging var reist árið 2018, til að mæta sívaxtandi ferðamannastraumi á Þingvelli. Í nýbyggingunni er nýr aðalinngangur, fjölnotasalur sem getur meðal annars verið fyrirlestrar- eða kvikmyndasalur, kennslustofa, fundarherbergi og skrifstofa. Í nýrri byggingunni er glæsileg sýning sem hlotið hefur mikla aðsókn og alþjóðlega viðurkenningu. Gláma Kím arkitektar voru aðalhönnuðir verkefnisins, Mannvit verkfræðistofa sá um hönnun burðarvirkis, lagna, loftræsingar, rafkerfa, lýsingar, hljóðvistar, eldvarna og öryggiskerfa. Lóðahönnun var samvinnuverkefni Glámu Kíms og Landslags ehf. Gagarín var aðalhönnuður sýningarinnar.

BREEAM vottun tekur sérstaklega til hönnunar manvirkja og því er vottunin sem nú er fengin sérstakt ánægjuefni allra sem að byggingunni komu.

Matið sem byggingin hlaut að vottunarferlinu loknu var 59,9%, eða „very good“, sem er sú niðurstaða sem stefnt var að.

FSR og Þingvallaþjóðgarður nutu ráðgjafar og verkefnastjórnunar Eflu í vottunarferlinu. Vottunarstofan lýkur miklu lofsorði á skil á gögnum og skýrslugerð Eflu í verkefninu, sem hún segir vera framúrskarandi.

BREEAM er alþjóðlegt umhverfisvottunarkerfi gefið út af BRE Global Ltd. í Bretlandi en skammstöfun þess stendur fyrir Building Research Establishment Environmental Assessment Methodology. Kerfinu var fyrst hleypt af stokkunum árið 1990 og var það upprunalega þróað og notað í Bretlandi fyrir skrifstofubyggingar. Kerfið hefur nú einnig verið þróað fyrir mismunandi tegundir bygginga á alþjóðlegum markaði þar sem áherslur eru mismunandi milli landa og svæða. BREEAM kerfið er í dag á meðal útbreiddasta umhverfisvottunarkerfa heims.

Samkvæmt BRE Global Ltd. er markmiðið með kerfinu að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum yfir líftíma bygginga með því að stuðla að umhverfisvænni hönnun og heilsusamlegra umhverfi fyrir notendur. BREEAM er einnig ætlað að stuðla að betri umhverfisstjórnun á verk- og rekstrartíma bygginga og skapa trúverðugan umhverfisstimpil á markaði.

BREEAM hentar fyrir skipulag allra bygginga, nýbyggingar, endurgerð bygginga og byggingar í rekstri. BREEAM er í stöðugri þróun, hver útfærsla er uppfærð á nokkurra ára fresti til að samsvara nýjum byggingarreglugerðum og tryggja framþróun í mannvirkjagerð.


Vottunarkerfið tekur til alls ferils framkvæmdar frá efnistöku til niðurrifs. Kerfið hefur þannig áhrif á alla þá fagaðila sem koma að framkvæmd og kallar á þverfaglegt samtal allra sem koma að verkefninu. 

Starfsfólk Framkvæmdasýslunnar óskar Þjóðgarðinum og EFLU til hamingju með vottunina. Í vottuninni er lagt mat á marga mismunandi þætti svo sem:

  • Umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma
  • Góða innivist sem tekur m.a. til hljóðvistar, inniloftgæða og lýsingar
  • Góða orkunýtni og vatnssparnað
  • Val á umhverfisvænum byggingarefnum
  • Úrgangsstjórnun á byggingar- og rekstrartíma
  • Viðhaldi vistfræðilegra gæða nánasta umhverfis
  • Lágmörkun ýmis konar mengunar frá byggingu t.d. er varðandi frárennsli og ljósmengun

Markmið BREEAM vistvottunar er að hanna og byggja byggingar sem hafa minni umhverfisáhrif, eru heilsusamlegri fyrir notendur og þurfa minna viðhald en hefðbundnar byggingar.

Vottunarskjal gefið út af BRE Global Ltd.




Fréttalisti