Græn sveifla einkenndi fyrsta Vistbyggðardaginn
Fyrsti Vistbyggðardagurinn á vegum Vistbyggðarráðs var haldinn hátíðlegur í Veröld, húsi Vigdísar í gær. Tólf innlendir og erlendir fagaðilar héldu fróðleg og lærdómsrík erindi um grænar lausnir og áherslur í byggingariðnaði og skipulagi. Margt hefur greinilega áunnist á undanförnum árum en ljóst að verkefnin fram undan eru ærin og kalla á samstillt átak.
Síðustu ár hefur FSR sýnt frumkvæði í innleiðingu vottunarkerfis í opinberum framkvæmdum og nú þegar er töluverður fjöldi bygginga á vegum FSR vottaðar eða í vottunarferli. Allar nýbyggingar FSR fara í gegnum alþjóðlega umhverfisvottunarkerfið BREAAM og BIM, en BREEAM kerfið er í dag útbreiddasta umhverfisvottunarkerfi heims sem nær til yfir 70 landa.
FSR vill halda áfram að miðla og veita hönnuðum og framkvæmdaaðilum í verkefnum á vegum stofnunarinnar tryggt bakland og síðast en ekki síst að veita stjórnvöldum stuðning við að ná fram markmiðum sínum í umhverfismálum.