Handbók EU BIM Task Group er komin út
Í handbókinni er að finna stefnumarkandi leiðbeiningar fyrir innleiðingu á BIM (Building Information Modelling) í opinberum framkvæmdum.
Í dag gaf vinnuhópurinn EU BIM Task Group, sem stofnaður var árið 2016, út handbókina Handbook for the introduction of Building Information Modelling by the European Public Sector. Vinnuhópurinn samanstendur af yfir 60 aðilum úr opinbera framkvæmdageiranum frá 21 Evrópulandi og er fjármagnaður af Evrópusambandinu. Helsta verkefni hópsins er að samræma aðgerðaráætlanir opinberra verkkaupa í Evrópu við innleiðingu á BIM í opinberum framkvæmdum og er útgáfa handbókarinnar mikilvægt skref í þá átt.
Í handbókinni eru sett fram sameiginleg viðmið og stefnumarkandi leiðbeiningar sem byggja meðal annars á áralangri reynslu þeirra Evrópuþjóða sem lengst eru komnar í innleiðingu og notkun á BIM í opinberum framkvæmdum. Það er von vinnuhópsins að handbókin stuðli að víðtækari samvinnu og samhæfingu við notkun á BIM aðferðafræði og stafrænni tækni í byggingariðnaðinum.
Hlutverk Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR) er að vera leiðandi afl á sviði opinberra framkvæmda og er innleiðing á aðferðafræði BIM liður í því. FSR hefur átt fulltrúa í vinnuhópnum frá stofnun hans 2016 og hefur aðlagað innleiðingaráætlun sína til samræmis við niðurstöður vinnuhópsins. Handbókina má lesa hér
Nánari upplýsingar um EU BIM Task Group er að finna á vefsíðu þeirra www.eubim.eu