Hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík
Fyrstu verðlaun 5 milljónir króna
Hafin er hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík. Samkeppnin er haldin í samstarfi við Ariktektafélag Íslands.
Framkvæmdasýsla ríkisins f.h. heilbrigðisráðuneytisins og Sveitarfélagsins Norðurþings bjóða til opinnar hönnunarsamkeppni (framkvæmdasamkeppni) um nýbyggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík, nánar tiltekið á lóðinni nr. 10 við Auðbrekku.
Um er að ræða 60 rýma hjúkrunarheimili, auk tengigangs á milli nýbyggingar og núverandi hjúkrunarheimilis Hvamms. Tvö fyrirspurnartímabil eru í samkeppninni og lýkur því fyrra 7. janúar 2020 en því síðara 7. febrúar 2020. Vakin er athygli á því að þessi samkeppni er rafræn, gögn eru afhent og þeim skilað rafrænt til Ríkiskaupa, samkvæmt leiðbeiningum á heimasíðu Ríkiskaupa og í Samkeppnislýsingu. Skilafrestur tillagna er 21. febrúar 2020.
Veitt verða þrenn verðlaun að heildarupphæð 10 milljónir kr. og þar af verða fyrstu verðlaun að lágmarki 5 m.kr. Í framhaldi af hönnunarsamkeppni er fyrirhugað að ganga til samningskaupa skv. 3. mgr. 39. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 um þjónustusamning við þátttakanda/höfund þeirrar tillögu sem dómnefnd velur til áframhaldandi hönnunar á húsinu.
Hönnunarkostnaður er áætlaður um 11,5% af framkvæmdarkostnaði eða um 210 m.kr. að frátöldum virðisaukaskatti. Innifalið í þóknuninni skal vera m.a. hönnun vegna LCC, BIM og BREEAM. Takist samningar ekki við höfund tillögu sem er valin nr. 1 áskilur kaupandi sér rétt til að ræða þar næst við höfund tillögu nr. 2 og að síðustu nr. 3 í samningskaupaferli. Takist samninga ekki við einn af framangreindum aðilum, áskilur kaupandi sér rétt til að hætta við samning. Ekki verður samið við þátttakanda sem bindandi útilokunarástæður 68. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 eiga við um.
Samkeppnin fer fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og er auglýst á EES. Nánari upplýsingar er að finna á heimsíðu Ríkiskaupa en þar eru leiðbeiningar til að skrá sig til þátttöku og nálgast samkeppnislýsingu og önnur ítargögn undir nafnleynd.
Samkeppnislýsing – Nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík
Gögnin eru á útboðsvefnum TendSign útboðsnúmer 21061