• Hús íslenskra fræða

10. maí 2019

Hús íslenskunnar verður að veruleika

Stefnt að því að húsið verði tilbúið 2022

Gengið hefur verið að tilboði ÍSTAKS byggingaframkvæmdir á Húsi íslenskunnar, sem rísa mun við Arngrímsgötu á Melunum í Reykjavík.  Heildarkostnaður við bygginguna er áætlaður 6.214,4 milljónir króna, 

Gengið hefur verið að tilboði ÍSTAKS byggingaframkvæmdir á Húsi íslenskunnar, sem rísa mun við Arngrímsgötu á Melunum í Reykjavík. Á næstu mánuðum mun Framkvæmdasýsla ríkisins semja við ÍSTAK um byggingu hússins, en framkvæmdir við bygginguna hefjast að líkindum í sumar.

Heildarkostnaður við bygginguna er áætlaður 6.214,4 milljónir króna, en inni í þeirri tölu er auk framkvæmdakostnaðar, húsbúnaður, listskreytingar, tæknikerfi, ráðgjöf á framkvæmdatíma, umsjón, eftirlit, þegar áfallinn kostnaður, áætluð óvissa og verðlagsbreytingar á tímabilinu. Heildarkostnaður við bygginguna samkvæmt áætlunum frá 2013 með verðlagsbreytingum var 4939,3 milljónir. Verður því byggingin um 26% dýrari nú en áætlað var.

Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins:

„Næstu skref verða að semja um byggingu þessa mikla og merka húss. Þetta er stórt og mikilvægt verkefni og ánægjulegt að ákveðið hafi verið að hrinda því í framkvæmd. Gangi allt vel á framkvæmdatímanum, teljum við mögulegt að starfsemi Árnastofnunar og Háskóla Íslands geti flutt í þessa glæsilegu byggingu í síðasta lagi haustið 2022.“

Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar:

„Ég fagna heilshugar að hefja eigi framkvæmdir við Hús íslenskunnar. Nú eru 11 ár liðin frá því að samkeppni var haldin um hönnunina. Ég hef kallað Húsið aflstöð íslenskunnar, þar sem munum virkja krafta allra þeirra sem vinna á vettvangi íslenskra fræða, ekki aðeins innan stofnunar heldur utan, í þágu íslensks almennings og heimsins. Þar sameinum við starfsemi Árnastofnunar, sem nú er dreifð um bæinn, og kennslu og rannsóknir í íslensku og íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands, en Háskólinn fjármagnar bygginguna að þriðjungi á móti hinu opinbera. En húsið er fyrst og fremst reist í þágu íslensks almennings og íslenskunnar. Fyrsta hæðin verður almenningur þar sem gestir og gangandi geta notið lifandi fræðslu um handritin og tungumálið sjálft. Bókasafnið verður þar í glæsilegu rými sem teygir sig upp eftir öllu húsinu þar sem bókakostur stofnunarinnar verður mun aðgengilegri en nú er. Þar verður einnig fyrirlestrasalur og veitingaaðstaða. Við höfum hafið hugmyndavinnu um sýninguna nýju og hvernig hún muni tengjast þessu opna rými á jarðhæðinni. Umræða um öryggi menningararfsins komst í hámæli í tengslum við sorgaratburðinn í París um daginn – og það er sannarlega langþráð að geta búið handritunum okkar, þjóðargersemum, bestu mögulegu varðveisluskilyrði sem hæfa nýrri öld og geta gert þau aðgengileg fyrir íslenska gesti og ferðamenn á nýrri og spennandi sýningu. Við erum því full tilhlökkunar.“

Framkvæmdir við bygginguna munu samkvæmt áætlun hefjast í sumar. Taka mun um þrjú ár að reisa húsið, innrétta og setja upp öll nauðsynleg kerfi. Húsið var hannað til að vera eins umhverfisvænt og kostur er og verður vottað af BREEAM umhverfisvottunarkerfinu.


Fréttalisti