10. maí 2021

Auga Ólafar Nordal vígt í MH

Verkinu er ætlað að rækta æskuna

Listaverk Ólafar Nordal, "Brunnur"var vígt við fallega athöfn í Menntaskólanum við Hamrahlíð í síðustu viku.

Listaverk Ólafar Nordal var vígt í Menntaskólanum við Hamrahlíð, föstudaginn 7. maí. Verkið ber nafnið „Auga“. Ólöf var valin til að gera myndverk í skólanum í tengslum við nýbyggingu skólans árið 2006. Það er gleðiefni að verkið sé loks orðið að veruleika.

Brunnur er skúlptúr, sem jafnframt er vatnsbrunnur sem nemendur, kennarar og gestir geta bergt af. Verkið er staðsett í rými til hliðar við vesturinngang skólans. Arkitekt hússins, Skarphéðinn Jóhannsson ætlaði þetta pláss fyrir ræktun á inniplöntum. Ólöf ákvað að taka upp þráðinn þar sem arkitektinn skildi við og rækta í gróðurreitnum æsku landsins með blávatni og dagsljósi.

Við vígsluna söng hluti Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð, en að söngnum loknum var verkið vígt af nemendum skólans sem bergðu á ljúfu vatni augans.

Ólöf segir svo um myndverkið:

Með annan fótinn í árdaga, hinn í ókominni tíð
teygir tungan sig í vatnið

úr vatnsauganu seytlar ljósavatn

Lesmálið aldagömul frétt, jafn óræð sem forðum
í lindinni býr leitin

sjáöldur eilífðarvatnsins ljúkast upp

Ólöf Nordal, höfundur verksins, ásamt Ögmundi Skarphéðinssyni arkitekt, Steini Jóhannssyni rektor MH og Helgu Jóhannsdóttur konrektor. 





Fréttalisti