Mesta framkvæmd Alþingis í 140 ár hafin
Verklok áætluð 2023
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis tóku í vikunni fyrstu skóflustungurnar að nýrri skrifstofubyggingu Alþingis, sem ætlunin er að verði tilbúin 2023.
Með því urðu þau tímamót að hafnar eru mestu framkvæmdir sem Alþingi hefur ráðist í frá byggingu sjálfs þinghússins, sem vígt var 1881.
Áform um skrifstofubyggingu Alþingis komu fyrst á borð Framkvæmdasýslunnar árið 2015. Alþingismenn og starfsmenn þingsins hafa á undanförnum áratugum haft skrifstofur og aðra vinnuaðstöðu í fjölda bygginga í Kvosinni. Ljóst var frá upphafi að Alþingi gæti sparað talsvert fé og aukið sveigjanleika í starfseminni með því að byggja sitt eigið hús í stað þess að leigja. Þá hefur skort á möguleika til að taka á móti gestum í húsakynnum þingsins.
Frumathugun
Alþingi fól Framkvæmdasýslu ríkisins að gera frumathugun sem er fyrsti áfangi í ferli opinberra framkvæmda. Frumathugun var gefin út í janúar 2016 að undangenginni þarfagreiningu sem unnin var í samvinnu við verkkaupa og Sigurð Einarsson arkitekt hjá Batteríinu Arkitektar ehf. Niðurstöður frumathugunar eru eftirfarandi:
Mælt var með því að ráðist yrði í byggingu skrifstofuhúsnæðis á Alþingisreitnum í samræmi við samþykkt skipulag þar um. Samkvæmt þarfagreiningu og húsrýmisáætlun er þörf fyrir um 5.000 m² nýbyggingu ásamt um 750 m² bílakjallara. Stærðarþörf er því alls um 5.750 m².
Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi er heimilt að byggja allt að 7.400 m² á reitnum. Heimild er því til að byggja um 2.400 m² til viðbótar ef þörf reynist.
Áætlanagerð

Næsta skref í opinberum framkvæmdum er áætlanagerð. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir (SOF) veitir heimild til hennar á grundvelli frumathugunar. Áætlanagerðin hófst með því að auglýst var hönnunarsamkeppni um verkefnið í júní 2016. Alls bárust 22 tillögur, en tillaga Studio Granda reyndist hlutskörpust. Í kjölfarið var samið við Studio Granda um fullnaðarhönnun byggingarinnar. Samstarfsaðili Studio Granda um verkfræðiráðgjöf er verkfræðistofna EFLA hf. Á árunum 2016-2019 var unnið að hönnun og frekari útfærslu byggingarinnar.
Verklegar framkvæmdir
Verkleg framkvæmd er síðasta skref opinberra framkvæmda. Þar kemur aftur til kasta SOF. Að gefnu samþykki nefndarinnar var hafist handa um útboð á fyrstu þáttum framkvæmdarinnar. Haustið 2019 var jarðvinna vegna verkefnisins boðin út og bauð verktakafyrirtækið Urð og grjót lægsta verðið. Fyrsta skóflustungan að byggingunni var sem fyrr segir tekin 4. febrúar 2020 og í kjölfarið hefst jarðvinna á svæðinu. Útboð á efnisvinnslu steinklæðningar hefur einnig farið fram og var samið við S.Helgason sem hefur nú þegar hafið efnisvinnsluna. Klæðningin verður unnin úr íslensku bergi.
Byggingin mun fara í vottunarferli fyrir umhverfisvæna
hönnun, BREEAM, og sér ráðgjafi um að BREEAM vottun fáist með viðeigandi
árangri. Ráðgjafar munu einnig hanna bygginguna eftir aðferðafræði BIM.
Verkefnið verður unnið eftir hugmyndafræði VÖR - Vistkerfi, öryggi og réttindi,
sem lýtur að því að verkefnið hafi jákvæð samfélagsleg áhrif.