Ný stefna og viðmið um skrifstofuhúsnæði komin út
Miklar breytingar frá fyrri viðmiðum
Fjármála- og efnahagsráðuneytið (FJR) hefur gefið út stefnuskjal með áherslum og viðmið fyrir húsnæðismál stofnana. Meðal meginmarkmiða stefnunnar er hagkvæm og markviss húsnæðisnýting og fjölbreytt og sveigjanlegt vinnuumhverfi sem styðji við teymisvinnu og samstarf.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið (FJR) hefur gefið út stefnuskjal með áherslum og viðmið fyrir húsnæðismál stofnana. Meðal meginmarkmiða stefnunnar er hagkvæm og marviss húsnæðisnýting og fjölbreytt og sveigjanlegt vinnuumhverfi sem styðji við teymisvinnu og samstarf. Skal styðjast við áherslur stefnuskjalsins við frumathugun, þarfagreiningum hönnun og húsnæðisöflun á vegum ríkisins.
Þá er í stefnu FJR kveðið á um að Ríkiseignir muni koma fram sem miðlægur leigutaki ríkisins að atvinnu- og skrifstofuhúsnæði á almennum markaði. Ríkiseignir muni því annast endurleigu á húsnæði til ríkisstofnana með það að markmiði að tryggja yfirsýn í húsnæðismálum. Sjá nánar HÉR .
Samhliða þessu gefur Framkvæmdasýslan nú að beiðni FJR gefið út leiðbeiningaritið „Viðmið um vinnuumhverfi - leiðbeiningar um þróun húsnæðis og starfsaðstöðu ríkisaðila”. Í ritinu er fjallað nánar um þróun og útfærslu nútímalegs vinnuumhverfis ríkisaðila. Fyrri viðmið um vinnuumhverfi voru gefin út út árið 2010 og felur nýja útgáfan í sér umtalsverðar breytingar í takt við breyttar áskoranir í ríkisrekstri og hraða framþróun starfsaðferða og stafrænna innviða.
Einkennandi fyrir starfsemi mikils fjölda ríkisaðila er að verkefni þeirra og stjórnunarhættir hafa breyst verulega síðastliðinn áratug og er í húsnæðisverkefnum í síauknum mæli kallað eftir fjölbreyttari vinnurýmum og auknum sveigjanleika starfsaðstöðu. Við þróun nýrra viðmiða hefur Framkvæmdasýslan m.a. notið ráðgjafar frá Kjara- og mannauðssýslu og Stafrænu Íslandi og er í viðmiðunum fjallað um þrjár meginvíddir nútíma vinnuumhverfis, þ.e. fólk, tækni og aðstöðu.
Í breyttum áherslum fyrir aðstöðu felst því meðal annars að horfið er frá þeirri stefnu að meirihluti starfsfólks hafi til afnota einkaskrifstofu, en aukið pláss fer þess í stað í fjölbreytta verkefnamiðaða vinnuaðstöðu svo sem fundarherbergi, hópvinnurými, næðisrými og félagsleg rými. Með þessum breytingum verða ríkisaðilar betur í stakk búnir að bregðast við breytingum í starfsemi og jafnframt næst fram aukin hagkvæmni í nýtingu húsnæðis. Þá er lögð áhersla á að nýta samlegðartækifæri í aðstöðu ríkisaðila eins og kostur er þannig að aðilar hafi aðgang að fjölbreyttari aðstöðu en áður og að um leið sé stuðlað að aukinni þekkingarmiðlun sem grundvöll nýsköpunar í störfum ríkisaðila. Þá er í viðmiðunun lögð aukin áhersla á umhverfismál m.a. í tengslum við aðstöðu vegna virkra samgöngumáta.
Stefnuskjal FJR má finna hér.
Viðmið FSR um vinnuumhverfi má finna hér