5. júní 2018

Nýr verkefnastjóri hjá FSR

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur fengið til liðs við sig verkefnastjóra umhverfismála

Olga ÁrnadóttirFramkvæmdasýsla ríkisins auglýsti eftir verkefnastjóra umhverfismála í mars síðastliðnum og varð Olga Árnadóttir fyrir valinu. Olga er með MA próf í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands en lokaverkefni hennar þar fjallaði um vistvottunarkerfið BREEAM og aðlögunarhæfni þess að íslenskum aðstæðum. Þá er hún með BA próf í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands, auk þess að hafa lokið einni önn í fornámi í Den Skandinaviske Designhøjskole.

Árin 2008-2017 starfaði hún í hlutastarfi, með hléum, hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands þar sem hún aðstoðaði við rannsóknir og sinnti ýmiss konar gagnaúrvinnslu. Sumrin 2012-2014 vann hún við rannsóknar- og nýsköpunarverkefnið Eyðibýli á Íslandi. Verkefnið fólst í því að skrásetja og meta um 750 eyðibýli allt í kringum landið. Olga gegndi hlutverki verkefnastjóra þess verkefnis sumrin 2013 og 2014.

Olga er boðin hjartanlega velkomin til starfa hjá FSR. 

Fréttalisti