Nýtt fangelsi á Hólmsheiði vígt
Þann 10. júní var nýtt fangelsi á Hólmsheiði vígt við formlega athöfn en það verður gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga.
Fangelsið leysir af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík og fangelsið í Kópavogi sem hafa verið lokuð. Þá er gert ráð fyrir að gæsluvarðhaldsdeild á Litla-Hrauni verði lögð niður og aðstaða hennar tekin undir afplánun. Stefnt er að því að fyrstu fangarnir hefji afplánun í hinu nýja fangelsi í ágúst.
Heimsóknaríbúð
Nýja fangelsið verður með 56 fangarýmum og þar verður sérstök deild fyrir kvenfanga og aðstaða fyrir afplánun stuttra fangelsisrefsinga og vararefsinga
Fjöldi gesta var viðstaddur athöfnina. Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsins, stýrði dagskránni og fluttu þau Páll E. Winkel fangelsismálastjóri, Jón Ingi Jónsson, formaður Fangavarðafélags Íslands, og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri ávörp auk ráðherra.
Hönnunarsaga
Arkís arkitektar ehf. hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni en niðurstöður hennar voru kynntar snemmsumars 2012. Höfundar tillögunnar eru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Ráðgjafar voru Birgir Teitsson, Egill Guðmundsson og Friðrik Friðriksson arkitektar. Alls bárust 18 tillögur í hönnunarsamkeppnina, 8 frá innlendum aðilum og 10 frá erlendum.
Efnt var til samkeppni um listskreytingar og hlutu fyrstu verðlaun þær Anna Hallin og Olga S. Bergmann. Tillaga þeirra heitir Aboretum – trjásafn og er margþætt listaverk, þyrping 9 tegunda trjáa og ,,fuglahótel” með tilheyrandi fuglahúsum sem unnin eru í samvinnu við tréverkstæðið á Litla-Hrauni.
Framkvæmdir
Fyrsta skóflustungan var tekin 4. apríl 2013 og er byggingartíminn því rúm þrjú ár. Jarðvegsframkvæmdir hófust með fyrstu skóflustungunni í kjölfar útboðs og síðar um vorið var bygging fangelsisins boðin út. Samið var við ÍAV um byggingu hússins en fyrirtækið átti lægsta tilboð af þremur sem bárust. Kostnaður er alls 2,7 milljarðar króna að meðtöldum kostnaði við samkeppni og hönnun og lóðarfrágangi.
Þak; keila og inngarður
Ákveðið var að fangelsið yrði vottað samkvæmt alþjóðlega umhverfisvottunarkerfinu BREEAM og fellur það sérstaklega vel að öllum 10 meginreglum svokallaðs Nordic Built sáttmála. Með þeirri hugmyndafræði er við sköpun á manngerðu umhverfi leitast við að auka lífsgæði, nýta sjálfbærni, staðbundnar auðlindir og byggja á norrænni hönnunarhefð eins og hún gerist best.
Nánari upplýsingar um hið nýja fangelsi frá Framkvæmdasýslu ríkisins.
Frétt af vef innanríkisráðuneytisins
Frétt af vef fangelsismálastofnunar
Ljósmyndari: Karl Petersson