21. apríl 2020

Rafræn heimsókn yngri ráðgjafa í Hús íslenskunnar

Verkefnastjóri FSR kynnir VÖR hugmyndafræðina

22. apríl halda Samtök Iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga í rafræna heimsókn í Hús íslenskunnar, sem nú rís á Melunum í Reykjavík. Meðal dagskrárliða í heimsókninni verður kynning verkefnastjóra FSR á VÖR hugmyndafræðinni sem þróuð hefur verið innan stofnunarinnar.

Mikill gangur er nú í framkvæmdum á Húsi íslenskunnar. Byggingin er afar áhugaverð fyrir ýmsar sakir. Af þeim sökum standa yngri ráðgjafar innan Félags ráðgjafarverkfræðinga fyrir rafrænni heimsókn í húsið miðvikudaginn 22. apríl næstkomandi kl. 14.30. Um er að ræða fjarfund sem er opinn fyrir alla. Þeir sem skrá sig fá sendan hlekk fyrir fundinn.

Dagskrá:

Ólafur Hersisson, arkitekt hjá Hornsteinum, segir frá hönnun hússins og sýnir myndbönd og líkön. Hús íslenskunnar hefur sérstaka stöðu, en það er byggt utan um þjóðardjásnin, íslensku handritin. Að auki var verkefnið eitt af þeim fyrstu hér á landi sem unnin voru að fullu skv. aðferðafræði BIM og eitt af þeim fyrstu sem hönnuð voru með BREEAM vistvottun að markmiði.

Ingimundur Þorsteinsson, staðarstjóri hjá Ístak, segir frá framkvæmdum. Uppsteypun hússins stendur nú yfir en burðarvirki hússins er flókið og lögun þess er óhefðbundin. Þá nýtir verktaki einnig BIM í framkvæmdinni.


Böðvar Tómasson, verkfræðingur hjá ÖRUGG verkfræðistofu fjallar um bruna- og öryggishönnun byggingarinnar, sem sérstaklega tekur tillit til öryggis handritanna og áhættugreiningar þeim tengdum

Olga Árnadóttir, verkefnastjóri umhverfismála hjá Framkvæmdasýslu Ríkisins, kynnir VÖR hugmyndafræðina. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur verið að þróa svokallað VÖR hugmyndafræði, þar sem lögð er áhersla á markmið og mælanlegan árangur í vistkerfis-, öryggis- og réttindamálum. Hugmyndafræðin og verkferlar tengdir henni eru notuð í byggingu Húss íslenskunnar. 


Fréttalisti