18. nóvember 2020

Samningur um byggingu skrifstofuhúss Alþingis undirritaður

Alþingi og ÞG verktakar undirrituðu í dag samning um byggingu skrifstofubyggingar Alþingis.

Samningur við ÞG verktaka um þriðja áfanga byggingar fimm hæða skrifstofuhúss á Alþingisreit var undirritaður í dag. Undir samninginn rituðu Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri fyrir hönd Alþingis og fyrir hönd verktaka Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verktaka.

Í þriðja áfanganum felst uppsteypa og fullnaðarfrágangur. Flatarmál aðalbyggingarinnar verður 5.073 m² að viðbættum 1.307 m² bílakjallara og kostnaðaráætlun þessa verkhluta er 3.340.725.282 m. vsk. Verktakinn er þegar byrjaður að koma sér fyrir á svæðinu og eru verklok áætluð í lok apríl 2023.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingaframkvæmdunum en arkitektar Studio Granda hlutu fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína í hönnunarsamkeppni sem haldin var árið 2016. Aðilar hönnunarteymis eru Studio Granda og EFLA.

Í byggingunni sem rís að Tjarnargötu 9, á milli Kirkjustrætis, Vonarstrætis og Tjarnargötu, verða skrifstofur þingmanna, funda- og vinnuaðstaða fyrir þingflokka og starfsfólk þeirra, fundaherbergi fastanefnda, vinnuaðstaða fyrir starfsfólk nefndanna og mötuneyti. Öll þessi aðstaða er nú í leiguhúsnæði.

Verkið verður unnið samkvæmt reglum hins nýja leiðsagnarverkefnis VÖR, sem tekur á helstu þáttum neikvæðra samfélagsáhrifa vegna byggingaframkvæmda. Skammstöfunin VÖR stendur fyrir Vistkerfi-Öryggi-Réttindi og er verkefninu ætlað að lágmarka neikvæð áhrif byggingaframkvæmda á sviði umhverfis-, öryggis- og réttindamála. Markmiðin með aðgerðum í vistkerfismálum eru að lágmarka umhverfisáhrif af framkvæmdum og rekstri byggingarinnar. Á sviði öryggismála eru markmiðin að engin alvarleg slys verði á verkstaðnum og að starfsfólk njóti góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu á verktímanum. Loks eru markmiðin hvað varðar réttindamál að vinnuaðstæður séu til fyrirmyndar og að öll réttindi starfsmanna séu virt að fullu.


Fréttalisti