16. apríl 2019

Sjúkrahótelið er ein grænasta bygging landsins

Hlaut 81% í umhverfisvottun hönnunar

Sjúkrahótel LSH, sem var formlega afhent 31. janúar síðastliðinn, er eitt umhverfisvænasta hús landsins. 

Sjúkrahótel LSH, sem var formlega afhent 31. janúar síðastliðinn, er eitt umhverfisvænasta hús landsins. Byggingin var hönnuð og byggð samkvæmt aðferðarfræði upplýsingalíkana mannvirkja (BIM) og aðferðafræði vistvænnar hönnunar. Hönnun byggingarinnar hefur verið vottuð sem vistvæn samkvæmt alþjóðlega umhverfisvottunarkerfinu BREEAM.

Sjúkrahótelið fékk fékk 81% stiga í hönnunarvottun hússins og hlaut því svokallaða „Excellent“ einkunn samkvæmt BREEAM kerfinu. Er þetta hæsta einkunn sem bygging hefur fengið í BREEAM hönnunarvottun á Íslandi. 

Sjúkrahótelið er á fjórum hæðum auk kjallara. Í sjúkrahótelinu eru 75 herbergi. Byggingin er alls 4.258 fermetrar að stærð (brúttó) eða 14.780 rúmmetrar (brúttó) með kjallara og tengigöngum sem tilheyra hótelinu.

Framkvæmdir hófust haustið 2015 og lauk í janúar 2019. Nýr Landspítali ohf. var verkkaupi verksins. Verkið var unnið í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkisins. Eftirlit og hlutverk byggingarstjóra var í höndum Verkís hf.

Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) hefur með höndum stóran hluta verklegra framkvæmda á vegum ríkisins. Framkvæmdasýslan hefur markað þá stefnu að allar viðameiri byggingar sem hún ber ábyrgð á verði vottuð sem vistvæn mannvirki.

Hér og hér má sjá umfjöllun Ríkisútvarpsins um græna vottun.


Fréttalisti