Skrifað var undir tvo húsaleigusamninga fyrir Landspítala í dag
Um er að ræða Eiríksgötu 5 sem verður breytt í göngudeildarhúsnæði og Skaftahlíð 24 sem verður skrifstofuhúsnæði Landspítala.
Skrifstofuhúsnæði Landspítala verður að Skaftahlíð 24
Annar samningurinn sem var undirritaður í dag var um leigu á 5.000 fermetra skrifstofuhúsnæði við Skaftahlíð 24 í Reykjavík. Þar verður komið fyrir um 250 starfsmönnum og miðast skipulag hússins við verkefnamiðað vinnuumhverfi eða „free seating“ fyrirkomulag. Starfsmenn munu ekki hafa fasta starfsstöð og skilja hverju sinni við hana eins og þeir komu að henni. Allt húsnæðið í Skaftahlíð verður endurhannað innanhúss miðað við nýtt skipulag, en í verkefnamiðuðu vinnuumhverfi eru miklar kröfur gerðar varðandi hljóðburð og fleira sem því tengist.Leigutími er 15 ár og er leigugjald 2.981 kr. pr. fermeter húsnæðis. Áætlað er að húsnæðið verði afhent fullbúið samkvæmt húslýsingu 25. júní 2019.
Talið er að flutningur og sameining skrifstofa Landspítala og annarra eininga á einum stað muni hafa í för með sér margvíslegt hagræði. Til að mynda mun upplýsingatæknideild spítalans sameinast en hún hefur verið á tveimur stöðum, hugbúnaðarhlutinn hefur verið í Fossvogi en aðrir hlutar starfseminnar á Hringbraut. Samskiptadeildin mun sameinast á einum stað í stað þess að vera á þremur stöðum, á Eiríksgötu 5, Landakoti og í aðalbyggingu spítalans við Hringbraut. Margvíslegt annað hagræði hlýst af því að sameina starfsemina sem er dreifð víða. Þá mun Landspítali skila um 450 fermetra húsnæði á Rauðarárstíg sem hann hefur haft á leigu frá Ríkiseignum.
Göngudeildarhúsnæði Landspítala verður að Eiríksgötu 5
Hinn samningurinn sem undirritaður var í dag er áframhaldandi leiga á Eiríksgötu 5, en um er að ræða 3.300 fermetra húsnæði. Húsnæðinu verður breytt í göngudeildir fyrir Landspítalann. Veggjaskipan verður breytt þar sem þess gerist þörf og komið fyrir 76 skoðunarstofum og 32 vinnustöðvum. Vaskar verða í öllum skoðunarstofunum og loftræsing verður bætt þannig að hún uppfylli kröfur sem gerðar eru til loftræsingar í klínísku húsnæði. Þá verður komið fyrir móttökum og biðstofum.Leigutími er 20 ár og er leigugjald 3.100 kr. pr. fermeter húsnæðis. Áætlað er að húsnæðið verði afhent fullbúið samkvæmt húslýsingu 1. mars 2020. Við gerð húslýsingar og seinna í samningaviðræðum við Reiti var við það miðað að breytingarnar væru fullnægjandi fyrir starfsemi spítalans og hagkvæmni gætt í hvívetna.
Núverandi göngudeildarstarfsemi býr við mikil þrengsli. Miðað er við að brjóstamiðstöð sem Landspítali var að taka yfir frá Krabbameinsfélaginu flytji í göngudeildarhúsið og jafnframt gefast tækifæri til sóknar í göngudeildarstarfsemi tengdri starfsemi Landspítala.
- Leigusali er Reitir hf.
- Verkkaupi er fjármála- og efnahagsráðuneytið.
- Umsjón með gerð leigusamninganna hafði FSR.