• Utbodsthing-GI

25. janúar 2019

Útlit fyrir að árið 2019 verði mikið framkvæmdaár

Á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins voru kynntar fyrirhugaðar verklegar framkvæmdir á vegum hins opinbera fyrir tæpa 128 milljarða króna. Það er um 50 milljörðum króna meira en í fyrra. 

Útboðsþing Samtaka iðnaðarins sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í gær, 24. janúar var afar vel sótt. Þar fór Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri FSR, yfir áætlaðar verkframkvæmdir ríkisins. Samtals eru áætluð útboð á árinu 2019 á vegum ríkisins 19,7 milljarðar króna. Sú upphæð var 12,9 milljarðar króna fyrir árið 2018 og 11,3 milljarðar króna fyrir árið 2017.

Fulltrúar 10 opinberra aðila kynntu fyrirhugaðar verklegar framkvæmdir á árinu á útboðsþinginu. Um er að ræða samtals 127,9 milljarða króna fyrirhugaðar verklegar framkvæmdir. Það er 49 milljarða króna hærri upphæð en kynnt var á útboðsþingi síðasta árs þegar upphæðin nam 79 milljörðum króna. 

Heildarupphæðir fyrirhugaðra verklegra framkvæmda opinberra aðila 2019 sem kynntar voru á þinginu eru:

  • Reykjavíkurborg 20,0 milljarðar króna
  • Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 16,4 milljarðar króna
  • Veitur 8,7 milljarðar króna
  • Landsvirkjun 4,4 milljarðar króna
  • Landsnet 9,2 milljarðar króna
  • Orka náttúrunnar 4,4 milljarðar króna
  • Faxaflóahafnir 2,7 milljarðar króna
  • Isavia 20,5 milljarðar króna
  • Vegagerðin 21,9 milljarðar króna
  • Framkvæmdasýsla ríkisins 19,7 milljarðar króna

Fréttalisti