Þrír nýir starfsmenn hjá FSR
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur fengið til liðs við sig þrjá nýja verkefnastjóra, þá Ármann Óskar Sigurðsson, Pétur Bolla Jóhannesson og Örn Erlendsson.

Í vor auglýsti FSR eftir öflugum liðsauka og bárust alls 51 umsókn, en sumir umsækjenda sóttu um fleira en eitt starf.
Ármann Óskar er byggingatæknifræðingur frá Tækniskóla Íslands, með M.Sc. í framkvæmdastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Lengst af starfaði hann hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar. Þá var hann í átta ár framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Sveinbjörns Sigurðssonar hf. Ármann Óskar hóf störf um miðjan ágúst.
Ármann Óskar Sigurðsson
Pétur Bolli er arkitekt frá Det Kongelige Kunstakademi í Kaupmannahöfn. Síðastliðin 10 ár hefur hann starfað sem skipulagsstjóri Akureyrarbæjar. Áður starfaði hann sem skipulagsarkitekt hjá Teikn á lofti ehf., verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ, sveitastjóri Hríseyjarhrepps og sem sjálfstætt starfandi arkitekt. Hann hefur einnig verið formaður félags byggingarfulltrúa frá árinu 2012. Pétur Bolli hefur störf 1. september.
Pétur Bolli Jóhannesson
Örn lauk B.Sc. í umvherfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands og M.Sc. í byggingarverkfræði við Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi. Áherslusvið hans í námi var vistvæn hönnun og kerfi. Örn hefur starfað sem umhverfissérfræðingur hjá White Architects AB í Svíþjóð, þar sem hann veitir ráðgjöf og útreikninga sem tengjast sjálfbærni og vistvænni hönnun innan Miljöbyggnad, LEED og BREEAM vottunarkerfanna. Með námi starfaði Örn sem rannsóknarverkfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Örn hefur störf 1. október.
Örn Erlendsson
Þeir Ármann Óskar, Pétur Bolli og Örn eru boðnir velkomnir til starfa hjá FSR.