Tryggingastofnun fékk afhent húsnæðið að Hlíðasmára 11 í gær
Húsnæðið í Hlíðasmára 11 í Kópavogi er á fjórum hæðum og um 2.560 fermetrar að stærð. Starfsfólk Tryggingastofnunar vinnur nú að því að koma sér fyrir í húsnæðinu og mun starfsemin hefjast þar formlega hinn 1. apríl nk.
Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins (TR), tók við lyklum að Hlíðasmára 11 úr hendi Páls V. Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Regins atvinnuhúsnæðis ehf., í gær, 21. mars. TR leigir allt húsnæðið af Regin og er leigusamningurinn til 25 ára.
Allur búnaður, húsgögn, tölvur og annað er nýtt og mun TR ekki flytja neitt með sér úr eldra húsnæðinu við Laugaveg þar sem í því húsnæði kom upp mygla. Því verður ekkert flutt á nýja staðinn, ekki einu sinni pappír og skjöl. Allt er skannað í tölvur og stefnt er að því að stofnunin verði rafræn að öllu leyti.
Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) sá um gerð þarfagreiningar og húsrýmisáætlunar í samvinnu við starfsfólk Tryggingastofnunar. Einnig sá FSR um gerð húslýsingar, auglýsingar og gerð leigusamnings, hafði eftirlit með breytingum á húsnæðinu, eftirfylgni leigusamnings og veitti ráðgjöf við innflutning í hið nýja húsnæði. Öll þessi vinna var unnin í nánu samstarfi við starfsfólk TR. Batteríið Arkitektar ehf. sá um hönnun breytinganna og komu fjölmargir verktakar að breytingunum, svo sem:
- E. Gunnarsson, byggingastjórnun og smíðavinna
- ÓR smíði, veggir
- Rafholt, raflagnir
- Stjörnublikk, loftræstilagnir o.fl.
- Stjörnumálun, málun og ílagnir