Tveir nýir starfsmenn hjá FSR
Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsti eftir verkefnastjóra útgáfu- og upplýsingamála og verkefnastjóra mannvirkja í mars sl.
Arna Björk er með MA próf í blaða- og fréttamennsku, BA próf í íslensku og kennsluréttindi í þeirri grein frá Háskóla Íslands. Hún starfaði á árunum 2003-2015 á skrifstofu Alþingis, með hléum, sem upplýsingafulltrúi, skjalalesari og ræðulesari. Árin 2015-2017 starfaði hún sem deildarbókavörður á Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Auk þess vann hún sem fararstjóri á Spáni, Króatíu og Hollandi sumrin 1998-2000 og 2003-2006 fyrir íslenskar ferðaskrifstofur. Arna hóf störf hjá FSR í apríl 2017.
Vífill er byggingarfræðingur frá Tækniháskólanum í Horsens, en starfaði áður sem véla- og kranamaður, húsasmiður og þjálfari. Að námi loknu hóf hann störf hjá Vektor ehf. sem hönnuður ásamt því að vera sjálfstætt starfandi, einkum við ráðgjöf í byggingarmálum. Árið 2008 var hann ráðinn inn á skipulagsdeild Kópavogsbæjar og fjórum árum síðar var honum boðið að færa sig yfir á tæknideild umhverfissviðs Kópavogsbæjar. Hann starfaði sem skipulags- og byggingarfulltrúi Fljótsdalshéraðs þar til hann hóf störf hjá FSR í júní 2017. Hann hefur hlotið löggildingu sem hönnuður, lokið við réttindi byggingarstjóra I, II & III, er á lista Skipulagsstofnunar yfir skipulagsráðgjafa, hefur sveinsbréf í húsasmíði og þungavinnuvélaréttindi á flestar gerðir stærri vinnuvéla.
Arna Björk og Vífill eru boðin velkomin til starfa hjá FSR.