14. desember 2020

Uppsteypa skrifstofubyggingar Alþingis hafin

Forseti Alþingis dældi steypu í grunn nýju byggingarinnar

Uppsteypa nýrrar skrifstofubyggingar Alþingis hófst fyrir helgi. Steingrímur J. Sigfússon sýndi fagmannlega takta er 80 rúmmetrar steypu runnu í grunn nýju byggingarinnar.

Fyrsta steypan rann í nýbyggingu skrifstofuhúss á Alþingisreit í dag og var byrjað á tækni- og lyftugryfju. Gert er ráð fyrir að samtals muni þurfa 4.485 rúmmetra af steypu í bygginguna, mótafletir verði 19.925 fermetrar, steypustyrktarstál 465.000 kg, glerveggir 692 fermetrar og botnplatan verður 60 sentímetra þykk. Þá verða settir í húsið alls 142 gluggar og 187 innihurðir. Girðing kringum framkvæmdasvæðið hefur verið endurnýjuð og sett á hana upplýsingaspjöld til að gefa vegfarendum hugmynd um hvað í uppsiglingu er á Alþingisreitnum.

Samningur við ÞG verktaka um þriðja áfanga byggingar fimm hæða skrifstofuhúss var undirritaður 18. nóvember sl. en í þeim áfanga felst uppsteypa og fullnaðarfrágangur. Flatarmál aðalbyggingarinnar verður 5.073 fermetrar að viðbættum 1.307 fermetra bílakjallara. Heildarkostnaðaráætlun hússins er um 4,5 milljarðar króna án verðbóta. Verklok eru áætluð í lok apríl 2023.

Verkið verður unnið samkvæmt reglum hins nýja leiðsagnarverkefnis VÖR . Skammstöfunin stendur fyrir Vistkerfi Öryggi Réttindi og er verkefninu ætlað að lágmarka neikvæð áhrif byggingaframkvæmda á sviði umhverfis-, öryggis- og réttindamála. Markmiðin með aðgerðum í vistkerfismálum eru að lágmarka umhverfisáhrif af framkvæmdum og rekstri byggingarinnar. Á sviði öryggismála eru markmiðin að engin alvarleg slys verði á verkstaðnum og að starfsfólk njóti góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu á verktímanum. Loks eru markmiðin hvað varðar réttindamál að vinnuaðstæður séu til fyrirmyndar og að öll réttindi starfsmanna séu virt að fullu.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingaframkvæmdunum en arkitektar Studio Granda hlutu fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína í hönnunarsamkeppni sem haldin var árið 2016. Aðilar hönnunarteymis eru Studio Granda og EFLA. 


Merkingar á vegg við Vonarstræti.


FSR leggur ríka áherslu á snyrtilega umgjörð um framkvæmdir sínar. Blái liturinn er einkennislitur framkvæmda á vegum FSR.


Fréttalisti