13. maí 2020

Úrslit í hönnunarsamkeppni í beinni

Hönnun nýs 60 eininga hjúkrunarheimilis á Húsavík kynnt á YouTube

Rafrænni hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili á Húsavík lýkur á úrslitastund fimmtudaginn 14. maí þegar heilbrigðisráðherra kynnir vinningstillögur í beinni útsendingu á YouTube. 

Fimmtudaginn 14. maí, kl 15:00 verður beint streymi frá verðlaunaathöfn hönnunarsamkeppni um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík, en þá mun Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynna verðlaunatillöguna og veita viðurkenningar. Streymið frá viðburðinum fer fram á YouTube rás Þekkingarnets Þingeyinga sem finna má hér að neðan:

Bein útsending, fim 14. maí kl. 15.
.

Fyrirhugað er að nýtt og glæsilegt 60 eininga hjúkrunarheimili rísi í hlíðinni ofan Dvalarheimilisins Hvamms og er áætlað að framkvæmdir hefjist sumarið 2021 og að þeim ljúki í lok árs 2023. Alls bárust 32 tillögur í hönnunarsamkeppnina og hefur dómnefnd skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins, sveitarfélaganna sem standa að uppbyggingunni og fulltrúum frá Arkítektafélagi Íslands nú lokið störfum. Verkkaupar eru heilbrigðisráðuneytið, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur.

Við hvetjum alla áhugasama til að fylgjast með viðburðinum þar sem tilkynnt verður um vinningstillöguna og viðurkenningar veittar fyrir aðrar áhugaverðar tillögur sem bárust í keppnina. 

Í kjölfar verðlaunaafhendingarinnar verður yfirlit yfir tillögur og niðurstöður dómnefndar aðgengilegar á heimasíðum Arkítektafélags Íslands, Ríkiskaupa, Framkvæmdasýslu ríkisins, heilbrigðisráðuneytisins og sveitarfélaganna Norðurþings, Skútustaðahrepps, Tjörneshrepps og Þingeyjarsveitar.

Samkeppnin um hjúkrunarheimilið á Húsavík hefur verið alfarið rafræn, en með því sparast verulegt fé auk þess sem rafræn samkeppni hefur minni neikvæð umhverfisáhrif en hefðbundin.


Fréttalisti