Verkefni fyrir 9,3 milljarða boðin út 2020
Framkvæmdasýsla ríkisins, Ríkiseignir, Landspítalinn háskólasjúkrahús áætla að framkvæmdaverkefni fyrir 9,3 milljarða verði boðin út á þessu ári, þar af er áætlað að Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) bjóði út verkefni fyrir 7,5 milljarða. Þetta kom fram í kynningu Guðrúnar Ingvarsdóttur forstjóra FSR á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í dag.
Um er að ræða verkefni af ýmsu tagi, allt frá minni viðhaldsverkefnum upp í stórar nýbyggingar. Verkefnin dreifast einnig ójafnt eftir stofnunum, en stærstu fyrirhuguðu framkvæmdirnar eru á vegum Alþingis, heilbrigðisráðuneytis og umhverfisráðuneytis.
Skrifstofuhúsnæði Alþingis er nú á lokastigi hönnunar og verður framkvæmd hússins boðin út í sumar. Jarðvinna hefur verið boðin út og hefst í febrúar. Þá eru fyrirhuguð útboð á tveimur hjúkrunarheimilum á Höfn annarsvegar og í Stykkishólmi hinsvegar. Tvær stórar framkvæmdir í uppbyggingu innviða ferðaþjónustu verða boðnar út á árinu, bygging þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellisandi og Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs.
Þá eru ótalin fjölmörg viðhalds- og breytingaverkefni á húsnæði í eigu og leigu opinberra aðila.
Í máli Guðrúnar á Útboðsþingi kom einnig fram að í skilamötum sem gerð voru á árabilinu 2017-2019 hafi áætlanir í verkefnum FSR staðist vel. Vegið meðaltal frávika frá áætlun var -2,85%, þ.e. verkefni voru að jafnaði tæpum 3% ódýrari í framkvæmd, en áætlun gerði ráð fyrir.
Guðrún tæpti einnig á nýjum áherslum FSR í stærri framkvæmdum stofnunarinnar. Innan FSR hefur verið þróuð svokölluð VÖR hugmyndafræði, þar sem lagt er áhersla á markmið og mælanlegan árangur í vistkerfis- öryggis- og réttindamálum. Hugmyndafræðin og verkferlar tengdir henni eru nú notuð í byggingu Húss íslenskunnar á Melunum.
Hér að neðan má sjá töflu sem sýnir fyrirhuguð útboð opinberra aðila á árinu.
Verkkaupi | Útboð |
Dómsmálaráðuneyti | 150 |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti | 875 |
Heilbrigðisráðuneyti | 2.812 |
Mennta- og menningarmálaráðuneyti | 307 |
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti | 1.180 |
Utanríkisráðuneyti | 625 |
Alþingi | 3371 |
Samtals útboð: | 9.320 |
Þar af FSR: | 7.521 |