Ársskýrsla FSRE 2023 komin út
Ársskýrsla FSRE fyrir árið 2023 er komin út. Í skýrslunni er farið vandlega yfir það helsta sem gerðist á vettvangi stofnunarinnar á árinu.
Skýrslan lýsir ári þar sem miklar breytingar urðu á stofnuninni. Á vordögum urðu forstjóraskipti, þegar Óskar Jósefsson tók við hlutverki forstjóra. Skipurit FSRE var einfaldað, nú eru kjarnasviðin tvö, þjónustu- og framkvæmdasvið. Á sama tíma eykst áhersla á þjónustuhlutverk stofnunarinnar við ráðuneyti og undirstofnanir.
Stór framkvæmda- og leiguverkefni tóku enda á árinu. Má þar nefna Eddu, hús íslenskunnar, Smiðju, skrifstofubyggingu Alþingis og Katrínartún 6, þar sem Skatturinn og Fjársýslan hafa aðsetur sitt. Þá var opnuð þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi, hjúkrunarheimili í Stykkishólmi og glæsileg heilsugæslustöð á Akureyri.
Stór verkefni komu á borð stofnunarinnar vegna jarðhræringa á Suðurnesjum. Starfsfólk stofnunarinnar átti í farsælu samstarfi við Rauða krossinn, Almannavarnir, Grindavíkurbæ og ráðuneyti vegna þessara verkefna.
Á árinu stóð yfir mikil vinna við endurskilgreiningu rekstrarmódela bæði FSRE og Ríkiseigna. Í skýrslunni er sagt frá þessari vinnu, en hluti af þessari vinnu var endurmat fasteignasafns Ríkiseigna, sem var fært niður um 25 milljarða króna. Í stuttu máli skapar þessi breyting svigrúm til verulega aukins fjármagns til viðhalds og endurbóta á eignasafninu.