3. mars 2023

Fimm taka þátt í samkeppni um hönnun húsnæðis viðbragðsaðila

 Níu teymi arkitekta sóttu um þátttökurétt í samkeppni um hönnun húsnæðis viðbragðs- og löggæsluaðila á höfuðborgarsvæðinu. Sex teymi uppfylltu öll hæfniskilyrði. 

Húsið mun rísa á svæði milli Holtagarða og Kleppsspítala. Áætlað er að það verði um 26 þúsund fermetrar. Í húsinu munu Ríkislögreglustjóri (RLS), lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (LRH), Landhelgisgæslan (LHG), Tollgæslan, Neyðarlínan (112), Slysavarnafélagið Landsbjörg og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgar-svæðisins (SHS) hafa aðsetur sitt og helstu starfsemi.

Auglýst var eftir umsækjendum um þátttöku í nóvember síðastliðnum. 17. janúar var tilkynnt að níu teymi hefðu sótt um þátttöku.

Í ljós kom að sex teymi uppfylla að öllu leyti skilmála samkeppninnar. Voru það:

  • Arkis arkitektar
  • Arkþing Nordic
  • Hornsteinar Arkitektar
  • T.ark Arkitektar ehf
  • Thg Arkitektar
  • Yrki arkitektar

Í dag, föstudaginn 3.3.2021 kl. 13 voru dregin af handahófi út nöfn fimm teyma. Drátturinn fór fram í Deiglunni í Borgartúni 26, þar sem Ríkiskaup og FSRE deila skrifstofuhúsnæði. Var hann gerður að viðstöddum fulltrúa Sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu, fulltrúum Ríkiskaupa og FSRE.


Viðstödd dráttinn voru Sigrún Svava Valdimarsdóttir frá Ríkiskaupum, Hildur Georgsdóttir yfirlögfræðingur FSRE, Áslaug Friðriksdóttir fulltrúi Sýslumanns, Hannes Frímann Sigurðsson verkefnisstjóri nýrra höfuðstöðva löggæslu- og viðbragðsaðila og Hildur Sif Arnardóttir frá Ríkiskaupum. 

Niðurstaða dráttarins er að eftirtaldir fimm aðilar verður boðin þátttaka í samkeppnisútboði um hönnun hússins:

  • Arkis arkitektar
  • Arkþing Nordic
  • Hornsteinar Arkitektar
  • T.ark Arkitektar ehf
  • Yrki arkitektar

Hvert og eitt teymi fær 10 milljónir króna fyrir tillögu sína. Að því loknu mun matsnefnd velja tvær tillögur sem unnar verða frekar.


Fréttalisti