30. nóvember 2022

Forval um hönnun 26.000 m2 húsnæði fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila hafið

Fimm teymi verða valin til þátttöku.

Í dag birtast á Evrópska efnahagssvæðinu auglýsingar FSRE um forval á arkitektahönnun byggingar fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu (HVH).

Óskað er eftir umsóknum frá teymum arkitekta sem taka vilja þátt í lokuðu samkeppnisútboði verkefnisins. Fimm teymi verða valin til þátttöku. Að því loknu tekur við þrepaskipt ferli, sem lýst er í útboðsauglýsingu. Að loknum fyrsta hluta samkeppninnar munu tvö teymi keppa um að hanna hina miklu byggingu.

Höfuðstöðvar löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, HVH, verður miðstöð þeirra sem gæta að lögum, reglu, björgun og öryggi almennings. Í miðstöðinni munu þessir aðilar fá nútímalega aðstöðu sem auðveldar til muna hina mikilvægu þjónustu og vernd sem veitt er almenningi.

Löggæslu- og viðbragðsaðilar sem hafa munu samastað í byggingunni verða:

· Landhelgisgæslan (LHG)

· Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu (LRH)

· Neyðarlínan (112)

· Ríkislögreglustjóri (RLS)

· Tollgæslan

· Landsbjörg

· Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) – skrifstofur

Umsóknir um þátttöku skulu berast í síðasta lagi kl. 12.00, 17. janúar næstkomandi. Frekari upplýsingar má finna hér á vef FSRE og á utboðsvefur.is.

Hér má sjá fréttabréf verkefnisins, en fyrsta tölublað þess verður dreift til starfsfólks fyrrgreindra aðila.


Fréttalisti