30. ágúst 2021

Framkvæmdasýsla og Ríkiseignir sameina krafta sína

Fjármálaráðherra ákvað 25. ágúst síðastliðinn að frá 15. september myndu verkefni og starfsfólk Ríkiseigna færast til Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR). Ráðuneytið tilkynnti ávörðun ráðherra á vef sínum fyrr í dag.

Samþætt stofnun mun eftir breytinguna starfa undir heitinu Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir og mun Guðrún Ingvarsdóttir veita henni forstöðu. Ákvörðun um tilfærslu verkefna byggir á ítarlegri greiningar- og stefnumótunarvinnu sem ráðuneytið og forstöðumenn stofnananna hafa unnið að síðastliðin misseri. Meðal þess ávinnings sem stefnt er að eru:

  • Aukin skilvirkni í starfsemi ríkisaðila
  • Aukið virði fyrir notendur aðstöðu
  • Fjárhagslegur ávinningur fyrir ríkissjóð
  • Efling íslensks byggingamarkaðar

Ríkiseignir urðu til árið 2015 við sameiningu Fasteigna ríkissjóðs og Land og auðlindaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Stofnunin heldur utan um eignarhald ríkisins á um 300 jörðum og rúmlega 500 þúsund fermetrum húsnæðis í um 380 eignum. 27 manns starfa hjá stofnuninni.

Framkvæmdasýslan varð til 1998 og er faglegur og miðlægur aðili á sviði framkvæmda og húsnæðisöflunar ríkisins. Um þessar mundir starfar stofnunin að um 130 verkefnum sem lúta að aðstöðuöflun- og uppbyggingu fyrir flestar greinar ríkisvaldsins. 40 manns starfa hjá FSR.


Fréttalisti