17. maí 2023

Framkvæmt við Dynjanda í sumar

Aðstaða ferðafólks og landvarða við Dynjanda batnar enn í sumar, þegar göngustígur verður lengdur upp að fossinum og þremur nýjum útsýnispöllum komið fyrir.

Ríkiskaup auglýsa þessa dagana fyrir hönd FSRE eftir tilboðum í framkvæmd við útsýnispalla 3, 4 og 5 við Dynjanda. Aðstaða ferðafólks við fossinn tók stórstígum framförum á árabilinu 2016-2020. Nýr göngustígur var lagður að útsýnispöllum við Göngumannafoss og Hrísvaðsfoss. Þá voru ný bílastæði byggð og aðstöðu fyrir landverði og gesti komið fyrir.

Hönnuðir útsýnispalla, bílastæða og göngustíga er Landform landslagsarkitektar á Selfossi, en Arkís hannaði byggingar á svæðinu. 

Framkvæmdin nú er í beinu framhaldi af því sem áður var gert. Haldið verður áfram með göngustíg upp að sjálfum Dynjanda og þremur nýjum útsýnispöllum úr stáli komið haganlega fyrir, til að bæta útsýni yfir þessi náttúruundur. Útsýnispallarnir verða við Strompgljúfursfoss og Hæstahjallafoss. Auk þess að bæta útsýni, eykur nýja aðstaðan öryggi gesta á staðnum.

Nú er auglýst eftir framkvæmdaaðila til að annast framkvæmdirnar. Markmið FSRE er að framkvæmdum á svæðinu verði lokið í október næstkomandi. Er það þó háð því að haustveðrið á sunnanverðum Vestfjörðum verði milt.

Tölvugert myndband af hönnun útsýnispalla og göngustígs má sjá hér að neðan.




Fréttalisti