• FSRE er flutt í Borgartún 26
    FSRE er flutt í Borgartún 26

15. nóvember 2022

FSRE á nýjum stað

Fyrsta deigla ríkisstofnana komin í notkun

Starfsfólk FSRE og Ríkiskaupa hefur komið sér fyrir á nýrri skrifstofu á 7. hæð Borgartúns 26. Skrifstofa stofnananna er fyrsta Deiglan, þar sem tvær eða fleiri ríkisstofnanir sameinast um aðstöðu. Er aðstaðan í Borgartúninu liður í að þróa aðferðafræði fyrir stærri Deiglur ríkisaðila sem eru í undirbúningi.

Alls starfa um 100 manns hjá stofnununum tveimur. Hæðin í Borgartúni 26 er í 1250 m2 og hefur hver starfsmaður því um 12,5 fermetra til ráðstöfunar. Engar einkaskrifstofur eru á hæðinni og enginn starfsmaður hefur fasta vinnustöð.

Innra skipulag hæðarinnar er í samræmi við viðmið fjármálaráðuneytisins um skrifstofuhúsnæði. Í viðmiðum er gert ráð fyrir 18-20 fermetrum á hvern starfsmann. Nýting rýmisins í Deiglunni er því talsvert betri en viðmiðin gera ráð fyrir.

Á hæðinni eru 70 hefðbundnar vinnustöðvar þar sem hver og einn starfsmaður getur tengt fartölvu sína við tvo skjái. Þá eru fjölbreytt funda- og næðisrými til að sinna stað- eða fjarfundum, símtölum eða til að vinna án þess að kliður trufli einbeitingu.

Húsnæðið er í eigu Eik fasteignafélags og hafði verið til leigu á markaði um nokkra hríð, en ríkið hefur leigt hæðina til þriggja ára.

Deiglur eru nýjung sem FSRE hefur þróað og er stefnt að opnun nokkurra slíkra á komandi árum. Þar fá ríkisaðilar nútímalega aðstöðu þar sem fjölbreytt stoðrými eru samnýtt með öðrum stofnunum. Aðstaða verði fyrir störf án staðsetningar, fjarvinnu og tímabundin verkefni víða um landið. Þannig skapast mikið hagræði og samlegð auk þess sem aukin tækifæri skapast til þekkingarmiðlunar, samstarfs og nýsköpunar þvert á ríkisstofnanir.

Nýtt heimilisfang FSRE er Borgartún 26, 7. hæð og nýtt símanúmer 590 9700.


Fréttalisti