24. janúar 2023

FSRE áformar að bjóða út verkefni fyrir 35 milljarða í ár

Útboðsþing SI fór fram 23. janúar sl. Á þinginu kynnti forstjóri FSRE áform stofnunarinnar um útboð á árinu. 

Alls hyggst FSRE bjóða út nýframkvæmdir fyrir 31,390 milljónir króna og viðhald og endurbætur fyrir 3,739 milljónir á yfirstandandi ári.

Mestu munar um útboð á vegum dómsmálaráðuneytis, en þar vegur þyngst fyrirhugaðar framkæmdir við höfuðstöðvar viðbragðs- og löggæsluaðila á höfuðborgarsvæðinu. Alls verða boðin út verkefni fyrir 17,000 milljónir fyrir ráðuneytið á árinu. 

Þá verður mikil athafnasemi á sviði heilbrigðismála á árinu. Alls stendur til að bjóða út verkefni að upphæð 9,580 milljónir króna á árinu. Munar þar mestu um hjúkrunarheimili á Húsavík, í Mosfellsbæ, í Hveragerði og víðar. Einnig stendur til að bjóða út framkvæmdir við heilsugæslu á Akureyri.

Aðferðir við útboð eru orðnar fjölbreyttari hjá FSRE en áður hefur verið. Þannig verða tveir þriðju hlutar þeirra verkefna sem boðin verða í formi alútboða eða samstarfsleiðar. Einungis 23% útboðanna verða hefðbundin verkframkvæmdarútboð. 

FSRE fer með umsjón 530 þúsund fermetra húsnæðis fyrir hönd ríkisins. Á árinu stendur til að bjóða út viðhalds- og endurbótaverkefni fyrir alls 3,739 milljónir króna. 

Kynningar frá Útboðsþingi SI 2023 má finna á vef SI, eða með því að smella hér

 

 


Fréttalisti