FSRE hlýtur Grænu skófluna fyrir hjúkrunarheimilið Móberg
Umhverfisverðlaunin Græna skóflan voru afhent í annað sinn á Degi grænnar byggðar í Grósku í gær. FSRE og samstarfsaðilar hlutu verðlaunin fyrir bygginguna Móberg, hjúkrunarheimili í Árborg.
Forstjóri FSRE tók í gær við Grænu skóflunni við hátíðlega athöfn í Grósku. Viðurkenningin er veitt fyrir hjúkrunarheimilið Móberg í Árborg. Tvö verkefni FSRE voru tilnefnd til viðurkenningarinnar. Annað verkefni FSRE, Jökulhöfði- þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Hellissandi var einnig tilnefnt.
Græna skóflan er viðurkenning fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum. Verðlaunin eiga rætur sínar að rekja til aðgerðar 6.9. í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030:
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Grænni byggð að mörg framúrskarandi verkefni hafi verið tilnefnd til Grænu skóflunnar í ár. Dómnefnd var skipuð af stjórn Grænni byggðar. Í niðurstöðum dómnefndar kemur fram að bygging hjúkrunarheimilisins Móbergs hafi borið af. Var niðurstaða dómnefndar einróma. Í dómnefndaráliti segir:
„Allt frá upphafi markaðist hönnun mannvirkisins af sjálfbærni, hvort sem litið er til framkvæmda- eða rekstrartíma. Áhersla var lögð á efnisval, innivist, orkumál og góða umhverfisstjórnun. Lífsferilsgreiningar og líftímakostnaðargreiningar voru notaðar við ákvarðanatöku í hönnun. Dagsbirtugreiningar voru framkvæmdar ásamt hljóðvistagreiningum. Sem dæmi má nefna að hljóðverkfræðingur skoðaði sérstaklega kröfur um hljóðvist fyrir notendur með sérstakar heyrnar- og samskiptaþarfir.
Segja má að einstakur metnaður hafi verið lagður í að tryggja vellíðan vistmanna samhliða því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum byggingarinnar.
Það var mikill samrómur innan dómnefndar um að verkefnið sýni:
- Framúrskarandi hönnun
- Fer lengra en að uppfylla bara skilyrði
- Setur ný viðmið fyrir aðbúnað hjúkrunarheimila með vistvænum áherslum
- Tryggir samfélagslega sjálfbærni"
FSRE var falið að byggja hjúkrunarheimili í Árborg árið 2015. Í maí 2017 hófst hönnunarsamkeppni um heimilið. Alls bárust 17 tillögur frá íslenskum og erlendum arkitektastofum. Niðurstöður dómnefndar voru kynntar í október 2017. Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps hlutu 1. verðlaun. Framkvæmdin var boðin út sumarið 2019. Eykt reyndist lægstbjóðandi og sá um byggingu hjúkrunarheimilisins. Byggingin var tekin í notkun í október 2022.
Helstu samstarfsaðilar FSRE við bygginguna voru:
Arkitektar: Urban arkitektar ehf. og Loop Architects (DK)
Verkfræðihönnun: Verkfræðistofa Reykjavíkur ehf.
Rafkerfahönnun: Liska ehf.
Ljósvistarhönnun: Liska ehf.
Brunahönnun: Mannvit hf.
Landslag: Hornsteinar arkitektar ehf.
Hljóðhönnun: Brekke Strand (NO)
BREEAM: EFLA hf.
Algild hönnun og ráðgjöf: Harpa Cilia Ingólfsdóttir
Aðalverktaki: Eykt ehf.
Sveitarfélagið Árborg og Heilbrigðisráðurneytið eru eigendur mannvirkisins, og HSU rekur það.Meginmál