Fyrsta skóflustunga tekin að nýju verknámshúsi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti
Fyrsta skóflustunga að nýju verknámshúsi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti (FB) var tekin þriðjudaginn 26. nóvember og markar hún upphaf framkvæmda við stækkun skólans.
Nýbyggingin mun bæta aðstöðu nemenda og kennara til muna en hún kemur til með að hýsa aðstöðu fyrir starfsnám í húsasmíði, rafvirkjun auk listgreina. Framkvæmdin mun efla starfsnám við FB og mætir aukinni eftirspurn á fagmenntuðu starfsfólki á þessum sviðum. Stækkun skólans nemur um 2.650 fermetrum að flatarmáli og stefnt er að því að taka bygginguna í notkun fyrir setningu skólans árið 2026.
Það voru Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Óskar Jósefsson forstjóri FSRE og Páll Daníel Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar sem undirrituðu samninginn, með þeim á myndinni að ofan er Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari. Framkvæmdakostnaður er 1,8 milljarðar króna en ríkissjóður mun standa straum af 60% kostnaðar við framkvæmdina, en Reykjavíkurborg 40%.
Verkefni alverktaka nær til fullnaðarhönnunar og byggingu verknámshúss og frágangi á því með föstum innréttingum, tækjum og frágenginni lóð. Það var byggingafélagið Eykt ehf. sem varð hlutskarpast í samkeppni verkefnisins, en opnun tilboða fór fram þann 13. september 2024. Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir, FSRE, hefur haft umsjón með undirbúningi verkefnisins. Í hönnunarteymi verktaka eru hönnuðir frá T.ark, Ferli, Örugg verkfræðistofu, Myrru og Optimum.
Mynd: Óskar Jósefsson forstjóri FSRE, Lovísa Eðvarðsdóttir formaður nemendaráðs, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra taka fyrstu skóflustungurnar.
Hönnun sem styður við hringrásarhagkerfið
Í hönnun hússins er horft til framtíðar, en leitast er við að nýbyggingin geti brugðist við og mætt breyttum áherslum í skólastarfi sem dregur verulega úr rekstrarkostnaði. Byggingin mun hljóta Svansvottun, sem tryggir lágmörkun umhverfisáhrifa. Verkefnið felur í sér vistferilsgreiningu (LCA) en auk þess verður lögð áhersla á hönnun sem styður við hringrásarhagkerfið, meðal annars með því að nota endurnýtt byggingarefni og tryggt verður að byggingin verði auðveld í viðhaldi og endurnýtingu. Verkefninu er ætlað að vera fordæmisgefandi varðandi innleiðingu vistvænna lausna í byggingariðnaði og stuðla að sjálfbærri þróun í samræmi við stefnu stjórnvalda.