GEYSIR Í HAUKADAL - UPPBYGGING INNVIÐA
Í síðustu viku fór fram lokaúttekt á 1. verkáfanga uppbyggingar innviða innan girðingar við Geysi í Haukadal. Verkið var boðið út sumarið 2023 og verkframkvæmdir hófust október sama ár.
Aðdragandinn að þessari framkvæmd hefur verið nokkuð langur en upphaflega var efnt til samkeppni um hönnun innviða við Geysi á árinu 2014. Teymi með teiknistofuna Landmótun sf. í fararbroddi varð hlutskörpust. Árið 2016 tókust samningar milli aðila um að íslenska ríkið keypti hlut landeigenda “innan girðingar” sem afmarkar Geysissvæðið og varð ríkið þannig eini eigandinn með full umráð yfir svæðinu fyrir hönd þjóðarinnar. Þann 17. júní 2020 var svæðið síðan friðlýst.
Nokkur áskorun er að velja efni og hanna útfærslur sem henta í þessu sérstaka umhverfi sem hverasvæðið er. Á undirbúningstímanum hefur því verið unnið að rannsóknum með því að smíða tilraunabrú og setja upp palla og grindur úr efnum sem ástæða þótti til að kanna og sannreyna varðandi gæði og endingu. Einnig þurfti að aðlaga upphaflegar tillögur að auknum fjölda gesta á svæðið og nýjum áherslum í efnisnotkun tengdum verkefninu „Varða; merkisstaðir á Íslandi“.
Áfanginn sem lokið var við í síðustu viku er 1. áfangi af 3 framkvæmdaáföngum skv. áætlun Umhverfisstofnunar og Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna (FSRE). Annar áfangi hefur verið boðinn út og tilboði í hann verið tekið. Tilboðið var eins og í fyrra útboðinu lítið eitt undir kostnaðaráætlun hönnuða og FSRE. Verklok 2. áfanga eru áætluð í lok apríl 2025. Í hönd fer nú hönnun 3. og síðasta verkáfanga og er ætlunin að hann verði boðinn út snemma á næsta ári. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið síðla hausts það sama ár. Umhverfisstofnun er verkkaupi en Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir hefur umsjón með framkvæmdinni.
Heildarkostnaðaráætlun fyrir verkefnið í heild skv. frumathugun FSRE á verðlagi í árslok 2021 var 854 milljónir. Sú upphæð innifelur framkvæmdakostnað, hönnunarkostnað og umsjón og eftirlit með hönnun og framkvæmdum.