23. mars 2023

Glæsileg þjóðgarðsmiðstöð vígð á Hellissandi

Þjóðgarðsmiðstöð Þjóðgarðs Snæfellsjökuls var vígð föstudaginn 24. mars. Lýkur þar farsællega langri byggingarsögu. 

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra vígði miðstöðina ásamt Sigríði Önnu Þórðardóttur, Sigrúnu Magnúsdóttur og Guðmundi Inga Guðbrandssyni, sem öll eru fyrrum umhverfisráðherrar. FSRE (Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir) hefur haft umsjón með byggingu þjóðgarðsmiðstöðvarinnar en nú tekur þjóðgarðurinn við byggingunni og fyllir hana lífi. 

Góðir hlutir gerast hægt. Umhverfisstofnun og Snæfellsbær efndu til hönnunarsamkeppni árið 2006. Fyrsta skóflustunga fór fram 2016. Jarðvinnu lauk árið 2019. Niðurstaða útboðs árið 2019 var að engu tilboði var tekið. Árið 2020 fór svo fram útboð og verktakafyrirtækið Húsheild bauð best, eða 88.5% af áætlun.

Síðan hafa framkvæmdir gengið með ágætum og starfsemi þjóðgarðsins verður hér eftir í hinni glæsilegu byggingu, sem er alls um 710 fermetrar. Verður þar þjónusta við gesti þjóðgarðsins auk aðstöðu þjóðgarðsvarða.

Kristján Rafn Harðarson hefur verið verkefnisstjóri byggingarinnar fyrir hönd FSRE:

„Mér finnst þetta mögnuð bygging. Hún er nú risin eftir langt og strangt ferli. Ég er viss um að íbúar, starfsfólk og ferðafólk muni hrífast af fallegum arkitektúr í stórkostlegu umhverfi. Þá mun tilkoma byggingarinnar þýða að þjónusta við ferðafólk verður bæði auðveldari og skilvirkari. Ég tel að ferðafólk muni njóta stórbrotinnar náttúru Snæfellsness enn betur í framtíðinni.“


Helstu samstarfsaðilar FSRE við bygginguna voru arkitektarnir hjá Arkís, verkfræðistofan EFLA, lýsingarhönnuðir Liska og verkfræðistofan Verkís. Verkefnastjóri FSRE við bygginguna er Kristján Rafn Harðarson. Húsið verður umhverfisvottað af BREEAM stofnuninni.

Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér, í upplýsingablaði mannvirkis við vígslu.


Fréttalisti