19. apríl 2023

Hús íslenskunnar vígt í dag

Hús íslenskunnar verður vígt við hátíðlega athöfn síðasta vetrardag. Við sama tilefni verður húsinu gefið nafn sem er afrakstur nafnasamkeppni meðal almennings. Alls bárust 1500 tillögur frá 3500 manns. Endanlegur kostnaður við bygginguna er á pari við áætlanir. 

FSRE (áður FSR) hefur haft umsjón með byggingu hússins í gegnum langa byggingarsögu. Í dag eru 52 ár frá því að fyrstu handritin bárust til landsins. Stofnun Árna Magnússonar tók við handritunum og hefur síðan varðveitt þau í Árnagarði. Fyrir síðustu aldamót varð ljóst að viðamikil starfsemi stofnunarinnar þyrfti veigameiri aðstöðu.

Framkvæmdirnar - ein mynd tekin á 10 mín. fresti.


Húsnæðið mun hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands og verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum; tungu, bókmenntum og sögu.

Þar verða jafnframt varðveitt frumgögn um íslenska menningu, þ.e. handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesaðstaða fyrir nemendur, fyrirlestra- og kennslusalir og bókasafn með lesaðstöðu.

Löng bið eftir húsinu

Árið 2007 efndi menntamálaráðuneytið til hönnunarsamkeppni um húsið. Á vordögum 2008 varð ljóst að arkitektastofan Hornsteinar áttu vinningstillöguna. Höfundar hússins eru þeir Ólafur Hersisson og Ögmundur Skarphéðinsson. Gerður var samningur við Hornsteina um hönnun hússins í byrjun árs 2009.

Árið 2013 tók Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra fyrstu skóflustunguna og jarðvinna hófst. Stóð grunnurinn til 2019 þegar bygging hússins var loks boðin út. Á árabilinu 2016 og fram að útboði voru gerðar markverðar breytingar á hönnun hússins, meðal annars til að auka við sýningaraðstöðu. Eykur það verulega svigrúm Árnastofnunar til miðlunar þjóðararfsins.

Að afloknu útboði byggingarframkvæmda 2019 varð ljóst að ÍSTAK myndi byggja húsið.

Vel heppnaðar framkvæmdir

Bygging hússins hófst 30. ágúst 2019 þegar Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri FSRE undirrituðu verksamning við ÍSTAK. Framkvæmdirnar gengu samkvæmt áætlun framan af, en í kjölfar heimsfaraldurs og hráefnisþurrðar vegna innrásar í Úkraínu varð nokkur töf. Húsinu er því skilað örfáum mánuðum á eftir áætlun.

Heildarkostnaður við bygginguna er um 98,9% af áætun frá 2019 á verðlagi dagsins í dag. Stefnt var að því að flutt yrði í húsið í haust, svo þessi áfangi næst á undan áætlun.

FSRE og aðalverktakinn ÍSTAK lögðu á verktímanum ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð. Sérstök áhersla var á umhverfis-, öryggis- og réttindamál. Niðurstaða þeirrar vinnu er meðal annars að húsið fær umhverfisvottun frá BREEAM stofnuninni og sú gleðilega staðreynd að engin vinnuslys urðu á verktímanum. Nánar verður greint frá þessu verkefni á næstu dögum.

Opið hús á fyrsta degi sumars

Í tilefni af vígslunni verður húsið opnað almenningi sumardaginn fyrsta, 20. apríl. Þennan dag geta gestir skoðað húsið áður en flutt er inn í það og starfsemi hefst. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá þar sem íslensk tunga verður í aðalhlutverki.

FSRE óskar Háskóla Íslands, Árnastofnun og þjóðinni allri innilega til hamingju með hina glæsilegu byggingu. 


Fréttalisti