12. september 2023

Húsnæði fyrir heilsugæslu og geðheilsuteymi tryggt í Reykjanesbæ

Mikil fjölgun íbúa á Suðurnesjum hefur kallað á aukna uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu. Merkir áfangar náðust í sumar og áfram verður byggð upp aðstaða.

Í síðustu viku gekk FSRE frá leigusamningi um húsnæði fyrir nýja heilsugæslu í Reykjanesbæ. Fyrr í sumar var húsnæði fyrir geðheilsuteymi í bænum útvegað og opnaði starfsemi þess í sumar.

Nýju heilsugæslunni er ætlað að brúa bilið þar til ný heilsugæsla í Njarðvík verður opnuð, en sú stöð er nú í útboðsferli hjá FSRE. Farin verður svokölluð PPP (public-private partnership) í uppbyggingu þeirrar stöðvar.

Leigusamningurinn um heilsugæsluna er til fimm ára. Um er að ræða nýlega hæð á Aðalgötu 60, alls um 1200 fermetra. Leigusalinn, Aðaltorg ehf., mun afhenda húsnæðið tilbúið til innflutnings að sex mánuðum liðnum og mun þá heilsugæsla opna í húsnæðinu. 70 bílastæði fylgja með í samningnum.

Einnig var undirritaður samningur um húsnæði fyrir geðheilsuteymi. Um er að ræða 470 fermetra húsnæði á Hafnargötu 90 í Reykjanesbæ. Leigusamningurinn er til fimm ára.


Fréttalisti