Leigutorg fyrir Grindavík opnað
Um 150 fasteignir verða í boði fyrst í stað
Klukkan 14 í dag verður opnað leigutorg á Ísland.is fyrir íbúa Grindavíkur. Þar verður hægt að skoða leiguíbúðir sem skráðar hafa verið í kjölfar auglýsingar þar sem óskað var eftir húsnæði til að leysa tímabundið úr húsnæðisþörf Grindvíkinga. Margir hafa brugðist við, en á torginu eru um 150 eignir auglýstar til leigu á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og víðar. Áfram verður tekið við skráningum á leigueignum á Ísland.is.
Samningar sem gerðir verða á vettvangi torgsins eru á milli leigusala og leigjenda. Ríkið veitir íbúum Grindavíkur sérstakan húsaleigustyrk í samræmi við lög þar um.
Aðgerðin er hluti af húsnæðistuðningi ríkisins við Grindvíkinga, sem einnig samanstendur af launastuðningi, leigustyrk og áður tilkynntum kaupum ríkisins á fasteignum.
Er horft til þess að með þessum samstilltu úrræðum verði hægt að stuðla að því að húsnæðisþörf Grindvíkinga verði leyst eins fljótt og vel og hægt er.
Torgið verður aðeins opið þeim sem voru með skráð lögheimili í Grindavík 10. nóvember. Hægt verður að komast inn á torgið á Ísland.is/Grindavik. Rafræn skilríki þarf til að komast inn á torgið.