29. nóvember 2022

Leitað að nýju húsnæði fyrir Heyrnar- og talmeinastöð

Um helgina auglýsti FSRE í blöðum eftir 800-850 fermetra húsnæði fyrir starfsemi Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands (HTÍ). Stöðin veitir heyrnarskertum, heyrnarlausum og fólki sem á örðugt með tal nauðsylega þjónustu. Hátt í 20 þúsund manns treysta á þjónustu stofnunarinnnar, sem skráir árlega um 23 þúsund samskipti við þjónustuþega sína.

Stöðin hefur verið til húsa í Valhöll, Háaleitisbraut 1 í 42 ár. Aðstaðan þar hefur verið ófullnægjandi um skeið og nánast ónothæf undanfarin misseri vegna framkvæmda á lóð, aðgengismála og þrengsla.

Nú er leitað að nútímalegu húsnæði fyrir stöðina. Starfsemi stöðvarinnar felst meðal annars í heyrnarmælingum og er hljóðvist og kröfur til innri rýma því ítarlegri og meiri en ef um almennt skrifstofuhúsnæði væri að ræða. Þá eru staðsetning og aðgengismál mikilvæg.

Allar upplýsingar um að hverju er leitað er að finna á útboðsvef Ríkiskaupa, utbodsvefur.is . Þá er auglýsingu um málið að finna hér á vef FSRE

Einstaklingar og lögaðilar sem telja sig eiga húsnæði við hæfi, eru hvattir til að kynna sér húslýsingu og önnur gögn málsins. Sérstök athygli er vakin á því að skilafrestur tillagna um húsnæði rennur út 12. desember.


Fréttalisti