Leitað að tímabundnu húsnæði fyrir tvö ráðuneyti
FSRE auglýsir eftir húsnæði fyrir ráðuneyti
Talsverðar breytingar hafa verið á húsnæðismálum ráðuneyta undanfarin misseri. Í upphafi yfirstandandi kjörtímabils var ráðuneytaskipan stokkuð upp og ráðuneytum fjölgaði. Þá hafa orðið miklar breytingar á skrifstofuhúsnæði, sem minnkar fermetraþörf, en eykur þörf á fjölbreyttu húsnæði. Einnig fannst mygla í húsnæði tveggja ráðuneyta.
Þannig eru nú tvö ráðuneyti staðsett í Síðumúla og tvö í Borgartúni. Frekari breytingar eru á döfinni.
Um helgina auglýsti FSRE eftir tímabundnu leiguhúsnæði fyrir tvö ráðuneyti. Leitað er að allt að 1.900 fermetrum skrifstofuhúsnæðis, miðsvæðis í Reykjavík. Húsnæðið skal vera nútímalegt og í samræmi við viðmið um verkefnamiðað vinnuumhverfi.
Auglýsinguna er meðal annars að finna hér .
Samhliða þessu stendur yfir endurgerð á stórhýsinu Skúlagötu 4, sem áður hýsti Ríkisútvarpið og Hafrannsóknarstofnun. Þar verða að aflokinni endurbyggingu innviða að minnsta kosti fjögur ráðuneyti, sem munu deila fundarsölum og stoðþjónustu. Verulegar breytingar verða gerðar á húsinu, meðal annars sett ný lyfta, loftræsting bætt auk þess sem húsið verður innréttað skv. viðmiðum um verkefnamiðað vinnuumhverfi.