Úrslit í samkeppni um listskreytingu fyrir Skúlagötu 4
Ríkiseignir boðuðu til lokaðrar samkeppni um listskreytingu fyrir Skúlagötu 4 síðastliðið haust þar sem yfir stóðu verklegar framkvæmdir við endurbætur á húsnæðinu.
Viðfangsefni samkeppninnar var loft undir skyggni við aðalinngang hússins sem fallið hefur á í tímanna rás og var markmiðið með tilkomu listaverksins að lyfta því upp og fanga athygli og hughrif þeirra sem þangað koma.
Umsjón með samkeppninni hafði Framkvæmdasýslan og var hún unnin í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM). SÍM tilnefndi Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur sem trúnaðarmanneskju samkeppninnar og þrjá óháða listfræðinga, þau Aðalheiði Valgeirsdóttur, Birtu Guðjónsdóttur og Hlyn Helgason, sem lögðu til nöfn þriggja listamanna. Allir listamennirnir þáðu boð um þátttöku og skiluðu tillögum, þau voru Anna Rún Tryggvadóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Pétur Magnússon. Í dómnefnd sátu Helgi Vignir Bragason fyrir hönd Ríkiseigna, Anna Eyjólfsdóttir myndlistarkona fyrir hönd SÍM, og Aðalheiður Atladóttir, arkitekt og formaður dómnefndar. Verkefnastjóri Framkvæmdasýslunnar og ritari dómnefndar var Sólveig Gunnarsdóttir.
Niðurstöður dómnefndar liggja nú fyrir og fyrsta sætið hreppti Jóna Hlíf myndlistarkona með verkinu; ,,Ár er alda” sem samanstendur af útskornu textaverki í messing og djúpbláum himni með innfelldri lýsingu sem endurspeglar stöðu stjarnanna yfir Reykjavík, 1. janúar 2061, þegar húsið verður 100 ára. Tillögurnar og dómnefndarálit þeirra má finna hér .
FSRE óskar Jónu Hlíf til hamingju og þakkar þátttakendum og öllum sem að samkeppninni komu fyrir sitt framlag.