9. mars 2023

Aukin ánægja með vinnuskilyrði með tilkomu Deiglu

Niðurstöður árlegrar könnunar á högum starfsfólks ríkisins – Stofnun ársins – voru kynntar nýverið.

Starfsfólk FSRE er umhugað um að allt starfsfólk ríkisins hafi góða aðstöðu til að sinna störfum sínum. Markmið stofnunarinnar er að skapa aðstöðu fyrir þjónustu ríkisins við borgarana. 

Það vakti sérstaka athygli og ánægju að sjá mælingar Sameykis á upplifun starfsfólks Ríkiskaupa og FSRE á sinni vinnuaðstöðu. Þannig jókst ánægja starfsfólks Ríkiskaupa með vinnuaðstöðu úr 3,99 í 4,29 af fimm mögulegum. Ánægja starfsfólks FSRE jókst enn meira; fór úr 3,70 í 4,48 af fimm mögulegum. Meðaltal ánægju alls starfsfólks ríkiins með vinnuaðstöðu mælist 3,80.

Í september fluttu stofnanirnar tvær úr Borgartúni 7, þar sem þær höfðu verið um árabil, á eina hæð í Borgartúni 26. Þar hefur verið innréttuð svokölluð Deigla – þar sem tvær eða fleiri ríkisstofnanir deila húsnæði. Deiglan í Borgartúni 26 er 1250 fermetrar og starfa um 110 manns á hæðinni. Engar einkaskrifstofur eru á hæðinni og enginn á fast skrifborð. Meðalfjöldi fermetra á hvern starfsmann er um 11,4. Algengt er að sú tala sé á bilinu 15-20.

Í stað einkaskrifstofa er boðið upp á fjölda næðisrýma, hópvinnurýma og vel búinna fundarherbergja. Fjarfundavæðing stofnananna hefur einnig þýtt talsverðan tímasparnað í samstarfi við aðrar stofnanir og aðra samstarfsaðila. Hönnun húsnæðisins er gerð eftir viðmiðum um vinnuhúsnæði sem fjármálaráðuneytið gaf út árið 2019.

Deiglan í Borgartúni er dæmi um nýjungar í skrifstofuhúsnæði fyrir ríkisaðila. Búast má við að fleiri stofnanir feti í fótspor Ríkiskaupa og FSRE og sameinist um húsnæði í þágu hagræðis og nútímalegri starfsaðstöðu.


Fréttalisti