MR í Austurstræti 17
230-250 nemendur MR munu næstu skólaárin sækja menntun sína í Austurstræti 17. Leigusamningur um eignina var undirritaður í vikunni.
Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri FSRE, og Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags, undirrituðu í vikunni samning um leigu á 1.519 fermetra húsæði í Austurstræti 17. Húsnæðið verður nýtt til að gera bragabót á húsakosti Menntskólans í Reykjavík.
Samningurinn er til átta ára og mun Eik fasteignafélag skila húsnæðinu fullbúnu til kennslu um miðjan ágúst næstkomandi.
Um er að ræða 2.- 6. hæð hússins, en verslun 10-11 er á jarðhæðinni. Alls verða 10 kennslustofur í húsinu auk félagsrýma, opinna vinnurýma, kaffiaðstöðu og veitingasölu. Gert er ráð fyrir að í haust sæki um 230-250 MR-ingar, eða um þriðjungur nemenda, menntun sína í Austurstræti 17.
Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík, er að vonum ánægð með að húsnæði fyrir skólann sé í höfn:
„Húsnæðið breytir öllu fyrir starfsemi skólans næstu skólaárin. Eftir að við misstum Casa Cristi hefur verið mjög þröngt á þingi í skólanum. Í Austurstræti verða nútímalegar skólastofur í miklu betra húsnæði en við þurftum að yfirgefa. Það opnar fyrir breytingu á kennsluháttum. Þá fáum við góða aðstöðu fyrir nemendur.“
Spurð hvort hún búist við að skóabragurinn muni breytast svarar Elísabet: „Ég vona svo sannarlega ekki, en geri mér á sama tíma grein fyrir að það verður áskorun að halda sömu samheldninni áfram. Það er þess vegna mikilvægt að tekist hafi að finna húsnæði svo nálægt reitnum okkar. Við munum haga skólastarfinu þannig að nemendur sem fá kennslustofur í þessu nýja húsnæði munu einnig sækja tíma til dæmis í íþróttahúsinu. Segja má að Lækjargatan og Austurstrætið muni lifna við.“
Austurstræti 17 var byggt fyrir kaupmennina Silla og Valda á árunum 1963-4. Húsið var tekið í notkun á aðventu 1964 er verslun Silla og Valda opnaði. Var hún með fyrstu sjálfsafgreiðsluverslunum landsins. Á efri hæðum var talsverður fjöldi fyrirtækja; Skipafélagið Jökull, heildverslun Árna Siemsen, útflutningsfirma Magnúsar Z. Sigurðssonar og skrifstofur Einars Sigurðssonar ríka, eins og Þjóðviljinn orðaði það í frétt 5. desember 1964. Svo skemmtilega vill til að faðir Elísabetar rektors MR, Ludwig H. Siemsen, rak heildsölu Árna Siemsen.